Innlent

Vöxturinn mestur í sölu á tölvuleikjum

Hilmar Veigar Pétursson.
Hilmar Veigar Pétursson.
iMesti vöxtur útflutningstekna í skapandi greinum hér á landi hefur verið í útgáfu tölvuleikja. Heildarverðmæti hefur sexfaldast á árunum 2005 til 2009, úr 1,9 milljörðum króna í 13,2 milljarða. Nær öll velta í útgáfu á tölvuleikjum hér á landi telst til útflutnings.

Þetta kemur fram í nýrri skýrslu um hagræn áhrif skapandi greina á Íslandi. Að skýrslunni stóðu dr. Margrét Sigrún Sigurðardóttir, lektor við viðskiptafræðideild Háskóla Íslands og forstöðumaður Rannsóknarmiðstöðva skapandi greina, og Tómas Young, verkefnastjóri hjá Útón. Fimm ráðuneyti og Íslandsstofa komu einnig að rannsókninni, sem nær yfir árin 2005 til 2009. Notast var við gögn frá Hagstofu Íslands, Fjársýslu ríkisins og Sambandi íslenskra sveitarfélaga.

Skapandi greinar veltu í heild 189 milljörðum hér á landi árið 2009. Hlutur hins opinbera af heildarveltu greinanna er um 12,5 prósent og voru ársverkin, eða störfin sem greinarnar sköpuðu, 9.371 talsins.

Útflutningstekjur skapandi greina voru um 24 milljarðar árið 2009 eða um þrjú prósent af heildarútflutningi þjóðarinnar. Til samanburðar má geta þess að útflutningstekjur landbúnaðarvara voru um 1,5 prósent af heildarútflutningi.

Hilmar Veigar Pétursson, framkvæmdastjóri tölvuleikjaframleiðandans CCP, segir þróun í útflutningi tölvuleikja hraðari hér á landi heldur en erlendis, en útflutningur CCP nam 7,5 milljörðum króna árið 2009, sem gerir um 60 prósent af heildarútflutningsverðmætum íslenskra tölvuleikja.

Hilmar segir skrásetningu sem sé í skýrslunni vera nauðsynlega til þess að sýna fram á tækifærin sem fram undan eru innan þeirra fyrirtækja sem starfa í skapandi greinum. Mikið hafi vantað upp á að það markaðsumhverfi sé skráð af sama krafti og almennur vöruútflutningur og framleiðsla.

Þetta er í fyrsta sinn sem umfang skapandi greina á Íslandi hefur verið kortlagt. Markmið kortlagningarinnar er að gefa vísbendingu um hagrænt umfang greinaflokksins í landinu. Skýrslan verður kynnt í heild sinni á málstofu í Háskóla Íslands í dag klukkan 12.

sunna@frettabladid.is




Fleiri fréttir

Sjá meira


×