Erlent

Banvænu agúrkurnar ekki fluttar til Íslands

Níu hafa látist í Þýskalandi og um þrjú hundruð hafa veikst eftir að hafa borðað sýktar agúrkur.
mynd/ap
F06290511 agúrkur
Níu hafa látist í Þýskalandi og um þrjú hundruð hafa veikst eftir að hafa borðað sýktar agúrkur. mynd/ap F06290511 agúrkur
Lífrænar agúrkur hafa verið afturkallaðar úr verslunum í Austurríki og í Tékklandi af ótta við útbreiðslu bakteríu sem hefur banað að minnsta kosti níu manns og valdið veikindum hundraða manna víðs vegar um Evrópu.

Í Þýskalandi hafa níu látist og um þrjú hundruð veikst vegna HUS-bakteríunnar, sem er sjaldgæft afbrigði E.coli-bakteríu. Í Svíþjóð hafa um tíu manns þurft að fara á sjúkrahús undanfarnar tvær vikur eftir að hafa ferðast til Þýskalands. Í Danmörku hafa átta manns farið á sjúkrahús með E.coli-sýkingu sem gæti tengst þessari nýju bakteríu. Hún hefur einnig greinst í Bretlandi og í Hollandi.

Eggert Árni Gíslason, framkvæmdastjóri Mata ehf., segir að alltaf sé eitthvað um að fyrirtækið flytji inn agúrkur þó svo að stærstur hluti sé íslenskur. Undanfarið hafa þær erlendu eingöngu komið frá Hollandi en það hefur þó gerst að spænskar agúrkur hafi verið fluttar til Íslands. „Íslendingar hafa flutt inn agúrkur á veturna frá Spáni en það hefur verið í mjög litlu magni," segir Eggert Árni og bætir við að þær hafi ekki verið lífrænar eins og þær sem sýktust á Spáni.

Kjartan Már Friðsteinsson, framkvæmdastjóri Banana ehf., segir fyrirtækið stöku sinnum flytja inn agúrkur frá Hollandi. „Það eru eiginlega allar gúrkur íslenskar. Ef þær skyldu vera erlendar eru þær hollenskar. Það gerist stundum ef það er ekki næg uppskera hér heima og þá er það á veturna," segir Kjartan Már, sem telur að íslenskir agúrkuneytendur þurfi ekki að hafa neinar áhyggjur.

Talsmaður Evrópusambandsins segir að rekja megi HUS-bakteríuna til tveggja gróðurhúsa á Spáni sem hafi nú hætt starfsemi. Verið er að rannsaka hvort veiran eigi uppruna sinn í vatninu eða jarðveginum á svæðinu. Niðurstöður úr þeim rannsóknum eru væntanlegar á allra næstu dögum.

freyr@frettabladid.is




Fleiri fréttir

Sjá meira


×