Lífið

Sunddrottningin verður prinsessa í næsta mánuði

Brúðkaup Alberts Mónakóprins og Charlene Wittstock fer fram í byrjun næsta mánaðar.
Brúðkaup Alberts Mónakóprins og Charlene Wittstock fer fram í byrjun næsta mánaðar. Mynd/Nordicphotos/getty
Fögur Sunddrottningin Charlene Wittstock fékk loks glaumgosann Albert prins til að ganga upp að altarinu. Nordicphotos/getty
Furstadæmið Mónakó stendur á haus þessa dagana vegna væntanlegs brúðkaups Albert Mónakóprins og sunddrottningarinnar Charlene Wittstock. Tuttugu ára aldursmunur er á parinu en íbúar Mónakó eru því fegnir að prinsinn festi loks ráð sitt.

Mónakó ætlar svo sannarlega að tjalda öllu til þegar Albert prins gengur í það heilaga. Sérstakt bollastell með mynd af parinu er farið í framleiðslu og borgin þakin myndum af Albert og Charlene Wittstock, unnustu hans. Það er kannski ekki skrýtið enda voru flestir farnir að örvænta um það hvort prinsinn mundi yfirhöfuð kvænast. Parið opinberaði trúlofun sína 23. júní í fyrra og er tveggja daga brúðkaupsveisla skipulögð 2. og 3. júlí næstkomandi.

Charlene Wittstock er tuttugu árum yngri en Albert prins, 33 ára gömul. Þessi suður-afríska sunddrottning kynntist prinsinum árið 2000 á sundmóti í Mónakó en opinbert samband þeirra hófst ekki fyrr en nokkrum árum seinna. Wittstock hefur verið sigursæl sundkona og hlotið verðlaun á stórmótum. Hún hefur nú lagt sundgleraugun á hilluna og ætlar að einbeita sér að prinsessuhlutverkinu.

Albert prins hefur verið í kastljósinu undanfarin ár vegna lífernis síns og sambanda sinna við ofurfyrirsætur og leikkonur. Sú staðreynd að hann hefur ekki gengið upp að altarinu með neinni þeirra hefur hins vegar ýtt undir vangaveltur um kynhneigð prinsins.

Nú er hins vegar búið að slá á allar slúðursögur því Wittstock og Albert prins hafa verið óaðskiljanleg frá árinu 2006. Saman komu þau í brúðkaup Viktoríu Svíaprinsessu í fyrrasumar og einnig vöktu þau athygli í brúðkaupi Vihjálms Bretaprins og Katrínar hertogaynju.

alfrun@frettabladid.is

Breytt um stíl Wittstock fer úr sundbrautinni og upp á rauða dregilinn. Nordicphotos/getty





Fleiri fréttir

Sjá meira


×