Innlent

Flugmálastjórn breyti verklagi og efli samkeppni

Samkeppniseftirlitið beinir því til Flugmálastjórnar að upplýsa ekki flugrekendur hér um sam­keppnisáform annarra flugrekenda. Fréttablaðið/GVA
Samkeppniseftirlitið beinir því til Flugmálastjórnar að upplýsa ekki flugrekendur hér um sam­keppnisáform annarra flugrekenda. Fréttablaðið/GVA

Afgreiðsla Flugmálastjórnar Íslands á flugréttindum hér á landi raskar samkeppni í áætlunarflugi til og frá landinu, að því er fram kemur í nýrri ákvörðun Samkeppniseftirlitsins.

„Skilyrði nýlegrar ákvörðunar Flugmálastjórnar um leyfi til Astraeus, sem er flugrekstraraðili Iceland Express, hefðu að óbreyttu komið í veg fyrir að félagið gæti boðið upp á áætlunarflug milli Keflavíkur og Winnipeg í Kanada næsta sumar,“ segir í tilkynningu Samkeppniseftirlitsins, sem hefur beint bindandi fyrirmælum til Flugmálastjórnar um að breyta verklagi sínu við veitingu flugréttinda með það að markmiði að auka samkeppni í flugi.

Í ákvörðun Samkeppniseftirlitsins segir að skilyrði Flugmálastjórnar styðjist ekki við heimild í lögum og hafi skaðleg áhrif á samkeppni.

„Á það sérstaklega við í þessu máli þar sem ákvörðun Flugmálastjórnar hindrar Iceland Express sem er helsti keppinautur Icelandair í áætlunarflugi til og frá Íslandi að efla starfsemi sína og fjölga áfangastöðum. Er því nauðsynlegt að Flugmálastjórn breyti verklagi sínu með það að markmiði að efla virka samkeppni til að nýir eða minni keppinautar geti með sem minnstum takmörkunum hafið flug til og frá Íslandi og aukið samkeppni til hagsbóta fyrir neytendur.“- óká




Fleiri fréttir

Sjá meira


×