Innlent

Hundarnir drápu 29 lömb og sjö kindur

Ekki er útilokað að hundarnir hafi verið í rúman sólarhring í beitarhólfinu.
Ekki er útilokað að hundarnir hafi verið í rúman sólarhring í beitarhólfinu. Mynd/GKS
Hundarnir tveir sem réðust á fé í beitarhólfi við Þórðarkot í Eyrarbakkahreppi 9. júní drápu alls 29 lömb og sjö kindur. Sumt af fénu var dautt þegar að var komið en öðru þurfti að sálga vegna bitsára.

Sigurður Nilsen, einn eigenda fjárhópsins, segir að eigandi hundanna, sem voru af Boxer-kyni, eigi nú í viðræðum við lögregluna á Selfossi um bætur vegna fjárins. Sigurður hefur gert kröfu um að fá 600 þúsund krónur í bætur. „Ég kastaði fram þessari tölu til að segja eitthvað. Skaðinn er auðvitað miklu meiri en það,“ segir Sigurður sem tekur fram að endanlegur skaði hans komi ekki í ljós fyrr fénu verður smalað í haust.

Það voru fangar frá Bitru, sem voru við girðingarvinnu stutt frá beitarhólfinu, sem fyrst gerðu viðvart um að dýrbítarnir væru í fénu. Í hólfinu voru 50 til 60 ær með lömb.

Hundarnir voru skotnir á staðnum þegar Sigurður vitjaði um féð. Þeir voru örmerktir og því auðvelt að finna eiganda þeirra.

Sigurður segir að hundarnir hafi rekið lömbin undan kindunum og það eigi eftir að koma í ljós hvort lömb og ær nái saman aftur. Þrjú lömb elur Sigurður heima eftir atvikið. - shá




Fleiri fréttir

Sjá meira


×