Erlent

Verstu þurrkar í sextíu ár

Hópur flóttamanna kominn til flóttamannabúða í Kenía eftir margra daga göngu frá Sómalíu.
Hópur flóttamanna kominn til flóttamannabúða í Kenía eftir margra daga göngu frá Sómalíu. nordicphotos/AFP
Öflugustu samtök herskárra íslamista í Sómalíu hafa aflétt banni við starfsemi erlendra hjálparstofnana, nú þegar verstu þurrkar til margra áratuga hrjá landsmenn. Bannið var lagt á árið 2009 með þeim rökum að hjálparstofnanirnar væru andsnúnar íslamstrú.

Þurrkarnir í Sómalíu og nágrannalöndunum á Horni Afríku, skaganum sem teygir sig út í Indlandshaf, eru þeir verstu sem komið hafa í sextíu ár. Í Sómalíu hafa langvinn borgarastríðsátök gert illt verra og vanburða stjórnvöld ráða ekkert við vandann.

Milljónir manna hafa orðið illa úti og streyma nú flóttamenn þúsundum saman frá Sómalíu á hverjum einasta degi, flestir til Kenía sem þó hefur einnig orðið illa úti vegna þurrkanna.

Starfsmenn Sameinuðu þjóðanna segja að helmingur barna í Sómalíu þjáist nú af vannæringu. Óttast er að hungursneyðin, sem nú þegar hrjáir fjölda fólks, verði óviðráðanleg.

Alþjóðlegar hjálparstofnanir hafa nú efnt til fjársöfnunar. Fjárþörfin nemur hundruðum milljóna króna. Vonir standa þó til þess að viðbragðskerfi, sem komið hefur verið upp vegna reynslunnar af fyrri hungursneyðum á þessum slóðum, muni virka eins og til er ætlast og voðinn verði því ekki jafn mikill og stundum áður.

Fyrir utan Sómalíu er mikil þörf fyrir aðstoð í Eþíópíu og Kenía.

Árum saman hefur úrkoma í þessum heimshluta verið óvenju lítil. Þúsundir manna eru á faraldsfæti að leita sér matar og nú þegar hafa hundruð manna dáið úr næringarskorti. Búfénaður er tekinn að falla úr hor.

Ofan á allt þetta hefur matvælaverð hækkað upp úr öllu valdi svo jafnvel þegar fólki stendur matvara til boða þá hefur það ekki efni á henni.

gudsteinn@frettabladid.is




Fleiri fréttir

Sjá meira


×