Erlent

Kerfisbundnar misþyrmingar

Sýrlenski herinn Sakaður um gróft ofbeldi gegn íbúum landsins í maí.
Sýrlenski herinn Sakaður um gróft ofbeldi gegn íbúum landsins í maí. Mynd/AFP
Mannréttindasamtökin Amnesty International segja sýrlenskar öryggissveitir að öllum líkindum hafa framið glæpi gegn mannkyni í umsátri sínu um bæinn Talkalakh í maí síðastliðnum.

Mótmælendur í bænum höfðu staðið fyrir mótmælum vikum saman gegn Bashar Assad forseta og krafist afsagnar hans. Á endanum þoldi forsetinn ekki lengur við og sendi herinn á vettvang.

Við tók blóðugt umsátur um bæinn, sem er skammt frá landamærum Líbanons. Talið er að tugir manna hafi látið lífið. Þúsundir flýðu yfir landamærin til Líbanons.

Amnesty International hefur rætt við fjölmörg vitni, sem skýra frá því að fólk hafi látist í fangaklefum, sætt pyntingum og handtökur hafi verið gerðar af handahófi. Frá þessu er skýrt í nýrri skýrslu samtakanna.

Samtökin skora nú á Öryggisráð Sameinuðu þjóðanna að vísa málinu til Alþjóðlega sakadómstólsins í Haag, sem fjallar um stríðsglæpi. Amnesty segir flest benda til þess að glæpir gegn mannkyni hafi verið framdir.

„Frásagnir vitna sem við höfum hlýtt á frá þessum atburðum draga upp afar óviðkunnanlega mynd af kerfisbundnum og markvissum misþyrmingum til að berja niður andóf,“ segir Philip Luther, aðstoðarframkvæmdastjóri Mið-Austurlanda- og Afríkudeildar samtakanna.

- gb




Fleiri fréttir

Sjá meira


×