Innlent

Varhugavert horn í miðbænum

Leikkonan á slysstað með hendina í fatla.
Leikkonan á slysstað með hendina í fatla. mynd/haraldur
Horn Hávallagötu og göngustígs þar er afar varhugavert, segir Helga E. Jónsdóttir leikkona en hún lenti í hjólreiðaslysi á þeim stað í þarsíðustu viku. Hún handleggs- og rifbeinsbrotnaði þá í árekstri við annan hjólreiðamann. „Þetta er svo þröngt hérna og í raun sér maður ekki þann sem kemur fyrir hornið fyrr en hann skellur í fangið á manni,“ segir hún. Það var nokkurn veginn þannig sem hún mætti hjólreiðamanninum. „Þegar ég er að fara fyrir hornið birtist hann allt í einu og skellur á framhjólinu hjá mér svo ég dett á olnbogann,“ segir hún. Hún mælist til þess að settar verði upp grindur við hornið þannig að þeir sem fari um það verði að hægja verulega á sér. „Þannig að einhver sem gleymir sér á hjólinu sínu aki ekki niður börn til dæmis sem hann gæti mætt á þessu varhugaverða horni,“ bætir hún við. Hún segir að hinn hjólreiðarmanninn hafi ekki sakað svo hún viti en hann hafi verið alveg miður sín vegna slyssins en þó hafi hann ekki áttað sig á þeim meiðslum sem hún hlaut í því. „Ég stóð nefnilega strax upp og hélt að allt væri í besta lagi, fór jafnvel að spjalla við ferðalanga sem áttu leið hjá um öryggismál. Svona eftir á að hyggja var það kannski full léttúðugt svona miðað við allt,“ segir hún og hlær við.- jse



Fleiri fréttir

Sjá meira


×