Innlent

Kalla starfsmenn úr sumarleyfi til vinnu

Mest ríður á tækjavinnunni nú segir vegamálastjóri. Þegar búið er að gera plön fyrir birgðir og tæki verður líklegast unnið á sólahringsvöktum við brúargerðina.
Mest ríður á tækjavinnunni nú segir vegamálastjóri. Þegar búið er að gera plön fyrir birgðir og tæki verður líklegast unnið á sólahringsvöktum við brúargerðina. mynd/Þórir N. kjartansson
Vegagerðin hefur kallað hátt í tuttugu manns úr sumarfríi til að vinna að smíði nýrrar brúar yfir Múlakvísl. Engin fljótvirkari lausn er til við þessar aðstæður en að reisa nýja brú og það tekur um tvær til þrjár vikur, segir Hreinn Haraldsson vegamálastjóri.

Baldvin Einarsson byggingaverkfræðingur tekur í sama streng og bætir við að þó víða erlendis hafi menn náð að setja niður brýr á nokkrum dögum þá sé það ekki hægt í beljandi jökulá.

Hreinn segir að enn sé ekki byrjað að vinna á sólahringsvöktum. „Það er verið að safna fólki saman," segir hann. „Margir voru komnir í frí og þar af nokkrir staddir uppi á hálendi. Þeir eru á leið til byggða. Nú liggur mest á að hefja véla- og tækjavinnu, búa til plön til þess að geyma byggingarefni og einnig plön þaðan sem hægt verður að reka niður undirstöðurnar. Þegar því er lokið geri ég ráð fyrir að unnið verði á sólarhringsvöktum," segir Hreinn og ítrekar að brúargerð af þessu tagi verði ekki hrist fram úr erminni.

„Þetta er brú sem þarf að taka alla þungaflutninga og standa af sér jökulvatnið jafnvel fram á næsta vor þannig að það er ekki hægt að kasta upp einhverri hrákasmíð."

Ögmundur Jónasson innanríkisráðherra segir að gerð mannvirkisins mun kosta á bilinu 400 til 500 milljónir króna. „Mér fannst mjög traustvekjandi að fylgjast með vinnubrögðum Vegagerðarinnar frá fyrstu stundu. Allur undirbúningur var fumlaus og markviss," segir hann. Ögmundur segist þó hafa fullan skilning á því að fólk sem hafi atvinnu af ferðaþjónustu hrylli við tilhugsuninni um að hringvegurinn verði lokaður í tvær til þrjár vikur.

Hægt er að komast framhjá Mýrdalsjökli með því að fara Fjallabaksleið nyrðri. Hún er hins vegar ekki fær fólksbílum og fyrir betur búna bíla tekur það um þrjár og hálfa klukkustund að fara þá leið.

Þjóðvegurinn rofnaði síðast árið 1996 en þá varð mikið hlaup í Skaftá. Þá tók það þrjár vikur að gera nýja brú. Þetta var um miðjan vetur svo ekki urðu ferðaþjónustuaðilar fyrir miklum skakkaföllum þá.

jse@frettabladid.is




Fleiri fréttir

Sjá meira


×