Innlent

Heyrúlla fór í gegnum fjósvegg

Kýrnar á Kvíabóli fengu að gæða sér á innihaldinu þegar rúllan var búin að raska ró þeirra í fjósinu. mynd/haukur marteinsson
Kýrnar á Kvíabóli fengu að gæða sér á innihaldinu þegar rúllan var búin að raska ró þeirra í fjósinu. mynd/haukur marteinsson
Marteinn Sigurðsson
Það getur verið vandasamt að heyja í brekkunni fyrir ofan bæinn Kvíaból í Köldukinn en í síðustu viku rúllaði 800 kílóa heyrúlla niður túnið og braut sér leið inn í fjós.

„Það voru nokkrar kýr inni og ég er viss um að einhver þeirra hefur orðið fyrir henni þó ekki sjái á neinni,“ segir Marteinn Sigurðsson, bóndi á Kvíabóli.

Hann segir að rúllan hafi oltið úr bindivélinni. Þá getur fátt stöðvað hana en í brekkunni er í um 18 til 23 gráðu halli. Hún lenti með slíku afli á fjósinu að hún fór í gegnum vegginn, sem gerður er úr einangrunarklæðningu, og reif upp veggstoð sem skrúfuð var niður í gólfið. Hafi hún lent á kú hefur þó stoðin verið búin að taka mesta höggið.

„Þetta var slíkur kraftur í þessu að konan mín sem var heima hélt að það hefði orðið sprenging,“ segir Marteinn en íbúðarhúsið er fyrir neðan fjósið. Þetta er ekki í fyrsta sinn sem Marteinn horfir á eftir heyrúllu niður brekkuna. Eitt sinn endaði rúlla á steyptum hlöðuvegg og sprakk þar. Marteinn getur þó andað léttar núna því búið er að heyja í hallanum mikla.

Kýrnar fengu væna sárabót fyrir öll óþægindin sem þær urðu fyrir en þar sem rúllan var orðin götótt var ekkert annað að gera, segir Marteinn, en að opna hana og leyfa kúnum að gæða sér á innihaldinu.- jse




Fleiri fréttir

Sjá meira


×