Innlent

Stendur áfram til að hitta Wen

jóhanna sigurðardóttir
jóhanna sigurðardóttir
Jóhanna Sigurðardóttir forsætisráðherra segir ekkert hæft í því að hún hafi hafnað því að hitta kínverskan starfsbróður sinn, Wen Jiabao, á fundi 14. júlí.

Í frétt Morgunblaðsins frá 7. júlí fullyrti Agnes Bragadóttir blaðamaður að ekki hefðu fengist skýringar frá forsætisráðuneytinu hví Jóhanna „sá sér ekki fært að taka á móti Wen Jiabao, forsætisráðherra Kína“, en Kínverjar hefðu nefnt þann dag sem mögulega dagsetningu fundar.

„Það er ekkert hæft í þessu. Þetta er einfaldlega eins og maður segir á hreinni íslensku: Moggalygi. Það var búið að festa niður heimsókn 14. júlí og ég er búin að samþykkja hana. Við vorum farin að undirbúa hana sem og viðskiptalífið, en síðan komu skilaboð frá Kínverjum að þeir gætu ekki þegið hana á þessum tíma,“ segir Jóhanna.

Hún segir að Kínverjum hafi verið boðið að velja úr dagsetningum það sem eftir er af þessu ári eða á því næsta.

Jóhanna segir athugasemdum hafa verið komið á framfæri við Morgunblaðið en ekki hafi verið tekið tillit til þeirra. Þá hafi Kínverjar sent Morgunblaðinu staðfestingu á að heimboðinu hafi ekki verið hafnað, en hún hafi ekki heldur birst á síðum blaðsins.

„Þetta er ótrúleg blaðamennska, ég hef aldrei séð annað eins.“- kóp




Fleiri fréttir

Sjá meira


×