Innlent

Brúarvinnu lýkur líklega í kvöld

Haldið verður áfram að flytja fólk og bíla yfir ána þar til hægt verður að hleypa umferð á bráðabirgðabrúna. fréttablaðið/pjetur
Haldið verður áfram að flytja fólk og bíla yfir ána þar til hægt verður að hleypa umferð á bráðabirgðabrúna. fréttablaðið/pjetur
Búist er við því að bráðabirgðabrú yfir Múlakvísl verði tilbúin í kvöld eða nótt. Þá er þó eftir talsverð vinna áður en hægt verður að hleypa umferð á á nýjan leik.

Í gærkvöldi var búið að negla allt brúargólfið og unnið að því að koma því á sinn stað. Þó að brúin sjálf sé að verða tilbúin þarf að byggja og lagfæra grjótvarnargarða sem eiga að verja bæði brúna og veginn að henni fyrir ánni. Einnig er unnið að því að klára vegi sem liggja að hinni nýju brú, sem liggur ofar en vegurinn og brúin sem skemmdust í hlaupinu í Múlakvísl á laugardaginn. Verið er að tengja veginn að vestanverðu við brúna. Þegar vinnu við varnargarðinn lýkur verður hægt að ljúka við að tengja veginn og brúna og koma umferðinni á. Stefnt er á að þetta gerist í næstu viku, en það fer eftir vatnsmagni í ánni að einhverju leyti.

Flutningar yfir Múlakvísl héldu áfram í gær og gengu þeir vel. Fjölmargir voru ferjaðir yfir en þurftu að bíða um stund. Eftir að rúta festist í ánni á þriðjudag hefur jarðýta verið stöðugt í vaðinu sem farið er yfir til að tryggja öryggi bifreiða. Þá hefur verið bætt við fjórða vörubílnum til að flytja bíla yfir vaðið.- þeb




Fleiri fréttir

Sjá meira


×