Innlent

Eimskip vill Hringrás ekki lengur á brott

Svona var umhorfs á lóð Hringrásar í gær. Þar hefur verið unnið af krafti að hreinsunarstarfi. Fréttablaðið/vilhelm
Svona var umhorfs á lóð Hringrásar í gær. Þar hefur verið unnið af krafti að hreinsunarstarfi. Fréttablaðið/vilhelm
Forsvarsmenn Eimskips telja ekki að starfsemi Hringrásar þurfi að flytjast frá Sundahöfn og fjær fyrirtækjunum í grenndinni. Starfsemi Eimskips raskaðist eftir brunann mikla aðfaranótt þriðjudags vegna eitraðs reyks sem lagðist yfir svæðið.

„Við ræddum þetta í dag og sjáum ekki ástæðu fyrir því að þeir ættu að þurfa að lúta einhverjum stífari reglum en aðrir, á meðan þeir uppfylla þau skilyrði sem þeim eru sett,“ segir Ólafur William Hand, upplýsingafulltrúi Eimskipa. „Þetta er hafnsækin starfsemi og hún þarf að vera við höfn,“ bætir hann við.

„Það geta allir lent í því að einhverjir óprúttnir vitleysingar kveiki í. Þeir voru búnir að gera allar ráðstafanir til að tryggja að svona gerðist ekki af sjálfsdáðum.“ Fyrir það beri ekki að refsa þeim.

Eimskip var meðal tíu fyrirtækja á svæðinu sem skrifuðu harðort bréf til borgaryfirvalda árið 2005 þegar ákveðið var að framlengja starfsleyfi Hringrásar eftir brunann risavaxna síðla árs 2004. Þar kvað við annan tón en nú.

Í bréfinu sagði meðal annars: „Eðli umræddrar starfsemi skaðar hagsmuni allrar nærliggjandi starfsemi og eiga nær- og aðliggjandi fyrirtæki eðlilega kröfu á hendur borgaryfirvöldum að þau fjarlægi svo óskylda starfsemi af svæðinu.“

Þá var óábyrgur rekstur Hringrásarmanna í aðdraganda fyrri brunans gagnrýndur harðlega í bréfinu. Aðeins væri tímaspursmál hvenær annar stórbruni yrði.

Ólafur segir að þá hafi aðrar aðstæður verið uppi og Hringrás hafi tekið sig verulega á síðan.

„Ég held að umræðan um að svona fyrirtæki þurfi að líða fyrir að það séu glæpamenn í samfélaginu sem gangi lausir og kveiki í sé hæpin á þessum tímum. Nú er hvert einasta starf á landinu verðmætt. Stjórnvöld ættu frekar að leggja meiri pening í forvarnir en að reyna að bola rekstri úr bænum.“

Framkvæmdastjóri Hringrásar sagði í fréttum RÚV í gær að vel kæmi til greina að byggja yfir dekkjahauginn til að varna því að eldur kæmist að honum. Slíkum hugmyndum fagnar Ólafur. „Allar betrumbætur á hafnarsvæðum eru góðar, við erum alveg sammála því.“

Lögreglurannsókn á brunanum stendur enn. Talið er víst að kveikt hafi verið í.

stigur@frettabladid.is




Fleiri fréttir

Sjá meira


×