Erlent

Börnin gráta björninn Knút

SB skrifar
Blóm hafa verið lögð að staðnum þar sem Knútur átti heima. Mynd/ AFP.
Blóm hafa verið lögð að staðnum þar sem Knútur átti heima. Mynd/ AFP.
Sorg ríkir í Þýskalandi vegna dauða ísbjarnarins Knúts sem naut ótrúlegra vinsælda meðal barna og fullorðinna þar í landi. Banamein Knúts hefur enn ekki verið staðfest en mörg hundruð gestir í dýragarðinum fylgdust með síðustu andartökunum í lífi hans.

Hann var stjarna dýragarðsins í Berlín og átti stað í hjarta okkar allra, segir Klaus Wowereit, borgarstjóri í Berlín.

Meira en sex hundruð manns fylgdust með dauðastríði Knúts í gær. Knútur hafði legið í sólbaði og bjó sig undir að stinga sér til sunds. Vitni lýsa því að hann hafi fengið einhvers konar flogakast, dottið í vatnið þar sem hann hafi marað í hálfu kafi og drepist.

Knútur fannst dauður í sundlauginni sinni.
Margir Þjóðverjar syrgja Knút, sérstaklega börn. Dæmi eru um að foreldrar hafi þurft að búa til sögur til að sefa sorg barnanna - Knútur sé bara farinn í frí eða að Knútí, eins og hann var oft kallaður, sé einfaldlega sofandi. Með tár í augum spurðu þýsk börn í sjónvarpsfréttum þar ytra í gærkvöldi - er Knútur á ísbjarnarhimnum?

Enn á eftir að rannsaka hræ bjarnarins en yfirmenn dýragarðsins í Berlín segja ljóst að hann hafi ekki dáið af eðlilegum orsökum. Dýraverndunarsamtök, sem barist hafa gegn veru Knúts í Berlín, hafa bent á að hann hafi verið undir miklu álagi, bæði vegna vinsældanna með gesta garðsins en líka vegna þess að öðrum björnum lynti ekki við hann.

Í þýskum fjölmiðlum í dag er bent á að stuttu eftir að Knútur sleit barnsskónum árið 2008 hafi dýralæknirinn Thomas Dörflein látist af völdum hjartaáfalls, aðeins 44 ára gamall. Dörflein var nánasti vinur Knúts - margir litu á hann sem eins konar föður litla húnsins.

Knútur var einn eftir og spyr þýska götublaðið Bild í dag hvort einmanaleikinn hafi kannski verið banamein bjarnarins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×