Innlent

Mengun gæti breytt ásýnd Þingvallavatns

Umferð um þjóðveginn austan við Þingvelli hefur þrefaldast frá því nýr vegur var lagður um Lyngdalsheiði. Fréttablaðið/Pjetur
Umferð um þjóðveginn austan við Þingvelli hefur þrefaldast frá því nýr vegur var lagður um Lyngdalsheiði. Fréttablaðið/Pjetur
Aukin bílaumferð um Þingvelli í kjölfar vegabóta á Lyngdalsheiði getur haft aukna mengun í för með sér í þjóðgarðinum. Auka þarf eftirlit með mengun frá veginum segir Ólafur Örn Haraldsson þjóðgarðsvörður á Þingvöllum.

„Þingvallavatn er eitt tærasta vatn sem um getur, en ef köfnunarefni, nitur og fleira frá umferðinni fer út í vatnið kemur þörungagróður, og þá hverfur blái liturinn og vatnið spillist," segir Ólafur.

Bílaumferð um Þingvelli hefur þrefaldast milli ára. Í fyrra fóru að meðaltali um 260 bílar um veginn á sólarhring samanborið við um 770 bíla í ár. Miðað við meðalfjölda í hverjum bíl má búast við að um ein milljón manns fari um þjóðgarðinn í ár.

Þegar ákveðið var að leggja nýjan veg um Lyngdalsheiði, austan við Þingvelli, var ákveðið að fylgjast náið með mengun frá bílaumferð um þjóðgarðinn, og þeim áhrifum sem hún kynni að hafa á Þingvallavatn.

„Við munum fylgja þeirri ákvörðun vel eftir," segir Ólafur. „Ég tel að það þurfi að bæta mælingarnar, bæði koma með nýjar tegundir af mælingum og mæla á nýjum stöðum. Núna er eingöngu mælt í Mjóanesi, sem er bær austan við vatnið, og mælingarnar eru mjög takmarkaðar."

Ólafur segir að fylgjast verði með mengun sem fellur við veginn, svo sem tjöru, sóti og gúmmíi úr dekkjum, en einnig verði að fylgjast grannt með loftmengun sem fylgi auknum umferðarþunga.

brjann@frettabladid.is




Fleiri fréttir

Sjá meira


×