Innlent

Alþingi að ljúka olíuumræðu

Katrín Júlíusdóttir.
Katrín Júlíusdóttir.
Frumvarp iðnaðarráðherra um leit, rannsóknir og vinnslu kolefnis verður til þriðju og síðustu umræðu á Alþingi í dag. Þá verða einnig rædd tvö frumvörp fjármálaráðherra um skattlagningu á kolvetnisvinnslu, en þau eru til annarrar umræðu.

Frumvörpin eru liður í breytingum á regluverkinu varðandi olíuleit. Útboð vegna leitar og rannsókna á Drekasvæðinu verður opnað 1. október. „Við höfum þegar orðið vör við þó nokkurn áhuga á útboðinu,“ segir Katrín Júlíusdóttir iðnaðarráðherra.

Hún segir að verið sé að samræma reglur því sem þekkist í nágrannalöndum okkar og auka samkeppnishæfni landsins. Náið samstarf hafi verið við Norðmenn vegna málsins, en þeir eru farnir að hugsa sér til hreyfings á svæðinu. Katrín segir áhuga Norðmanna jákvæðan fyrir Íslendinga og auka áhugann á leit og rannsóknum á Drekasvæðinu.

Katrín var nokkuð gagnrýnd fyrir að ekki náðist að ljúka málinu fyrir sumarfrí og útboðið tafðist um tvo mánuði. Hún gefur lítið fyrir þá gagnrýni, þeir sem áhuga sýni á olíuleit hugsi ekki í einum eða tveimur mánuðum heldur mun lengri tíma. „Þetta snerist ekki um gjaldeyri inn í landið einn, tveir og þrír. Þessi gagnrýni var hálfgerður pólitískur sumarleikur.“

Gangi útboðið vel má búast við rannsóknum á svæðinu innan tíðar og, skili þær góðum niðurstöðum, vinnslu innan nokkurra ára. „Ef rannsóknir og leit fara strax af stað, eins og vonandi gerist, er æskilegt að við fáum sem mestar tekjur út úr því,“ segir Katrín.

- kóp




Fleiri fréttir

Sjá meira


×