Innlent

52% vilja Ólaf ekki í framboð

Ólafur Ragnar Grímsson
Ólafur Ragnar Grímsson
Tæplega helmingur landsmanna vill að Ólafur Ragnar Grímsson, forseti Íslands, gefi kost á sér fyrir fimmta kjörtímabilið í forsetakosningum sem fara fram á næsta ári, samkvæmt skoðanakönnun Fréttablaðsins og Stöðvar 2. Alls sögðust 47,6 prósent þeirra sem afstöðu taka í könnuninni vilja að Ólafur Ragnar bjóði sig fram að nú, en 52,4 prósent eru því andvíg.

Þegar Fréttablaðið kannaði síðast afstöðu fólk til forsetans, 24. febrúar síðastliðinn, sögðust 50,2 prósent vilja að Ólafur Ragnar færi fram á ný, en 49,8 prósent vildu það ekki.

Talsverður munur er á afstöðu fólks til mögulegs framboðs Ólafs Ragnars eftir því hvaða stjórnmálaflokk það styður. Alls sögðust um 56 prósent stuðningsmanna Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokksins vilja að Ólafur Ragnar byði sig fram aftur. Um 30 prósent stuðningsmanna Samfylkingarinnar og tæp 32 prósent stuðningsmanna Vinstri grænna voru sömu skoðunar.

Íbúar á landsbyggðinni eru hlynntari framboði Ólafs Ragnars en íbúar höfuðborgarsvæðisins. Um 52,2 prósent íbúa landsbyggðarinnar vilja að hann bjóði sig fram aftur, en 45,4 prósent íbúa á höfuðborgarsvæðinu.

Hringt var í 800 manns fimmtudaginn 8. september. Þátttakendur voru valdir með slembiúrtaki úr þjóðskrá. Svarendur skiptust jafnt eftir kyni, og hlutfallslega eftir búsetu og aldri.

Spurt var: Finnst þér að Ólafur Ragnar Grímsson ætti gefa kost á sér fyrir fimmta kjörtímabilið sem forseti Íslands þegar kosið verður á næsta ári? Alls tóku 89,4 prósent afstöðu til spurningarinnar.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×