Innlent

Óviss stuðningur nýrra vina

Grétar Þór Eyþórsson.
Grétar Þór Eyþórsson.
Grétar Þór Eyþórsson stjórnmálafræðingur segir afstöðuna til forsetans, sem fram kemur í könnun Fréttablaðsins, ekki koma á óvart. Forsetinn hafi aflað sér margra vina í Sjálfstæðis- og Framsóknarflokki með notkuninni á málskotsréttinum, en eignast óvini í eigin röðum. Þessi hlutföll þurfi því ekki að koma á óvart, þjóðin skiptist til helminga í afstöðu til hans. „Hann er hins vegar umdeildur og hvergi nærri víst að það sé á vísan að róa ákveði hann að fara fram.“

Grétar Þór segir Ólaf mjög pólitískan forseta. Hann hafi veist hart að núverandi ríkisstjórn, en eigi ekki sjö dagana sæla í stjórnarandstöðuflokkunum. Afstaða hans til kínverskra fjárfestinga hér á landi geti fækkað í vinahópi hans.

„Stóra breytingin á forsetaembættinu, í tíð Ólafs, er notkun hans á málskotsréttinum. Aðrar breytingar eru þær pólitísku yfirlýsingar sem hann hefur gefið. Það þýðir að hann getur átt von á því að mæta harðari andstöðu ef hann ákveður að fara fram.“

Grétar segir fullsnemmt að spá fyrir um hvort Ólafur Ragnar býður sig aftur fram. „Hann er svo óútreiknanlegur að ég segi bara já eða nei. Mér finnst hann vera að senda frá sér yfirlýsingar í báðar áttir í pólitíkinni. Ef ég ætti að giska á eitthvað, út frá þeim, finnst mér eins og honum sé orðið sama um hvaða stuðnings hann nýtur og ætli ekki fram. En ég vildi fá að bíða í tvo til þrjá mánuði með að svara þessari spurningu.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×