Innlent

Þjóðskrá í flokki þeirra bestu

Haukur Ingibergsson
Haukur Ingibergsson
„Þetta kemur okkur ánægjulega á óvart, við vissum að við værum til skoðunar en tilnefningin er framar okkar vonum,“ segir Haukur Ingibergsson, forstjóri Þjóðskrár Íslands.

Alþjóðasamtök sérfræðinga á sviði fasteignamats, The International Association of Assessing Officers eða IAAO, hafa tilnefnt Þjóðskrá Íslands til æðstu viðurkenningar sem samtökin veita fyrir framúrskarandi aðferðir við mat á fasteignum og miðlun upplýsinga um matið.

„Viðurkenningin er vísbending fyrir alla þá sem þurfa að nýta fasteignamat við vinnu sína um að vel sé staðið að framkvæmd matsins. Fyrir þremur árum var fasteignamatið alfarið flutt til Þjóðskrár Íslands og við höfum unnið að því að það endurspegli gangverð og raunverulegt verðmæti eignanna. Þetta styður þá tilfinningu okkar að vel hafi tekist til og það sést líka á því að undanfarin þrjú ár hefur kærum vegna fasteignamats fækkað.“ Tilkynnt verður á ársþingi IAAO í Phoenix í Arizona í Bandaríkjunum 20. september næstkomandi hver hlýtur viðurkenninguna en Haukur segir það sjaldan gerast að viðurkenningin falli evrópskum stofnunum í skaut.

Í vali IAAO er meðal annars bent á að Þjóðskrá Íslands hafi með nýjustu tækni og aðferðum við fasteignamat skipað sér í forystu í alþjóðlegu samhengi, þrátt fyrir efnahagsþrengingar. - jma




Fleiri fréttir

Sjá meira


×