Póst- og fjarskiptastofnun (PFS) hefur nú til rannsóknar meinta heimildarlausa símhlerun starfsmanns símafyrirtækis. Þetta staðfestir Hrafnkell Gíslason, forstjóri PFS, við Fréttablaðið. Hann segir málið það fyrsta sinnar tegundar sem stofnunin hafi fengið til athugunar.
Eftir því sem Fréttablaðið kemst næst er um að ræða að viðkomandi starfsmaður hafði nýlega slitið samvistir við maka sinn. Makinn lagði fram kvörtun, sem vísað hefur verið til PFS og snýst efnislega um að makinn fyrrverandi hafi hlerað síma viðkomandi.
Hrafnkell segir að í gegnum tíðina hafi verið talsvert um fyrirspurnir vegna símhlerana, en ekki hafi verið um formlegar kvartanir að ræða fyrr en nú. Málinu sem að ofan greinir sé ekki lokið en því muni klárlega ljúka í þessum mánuði.
„Okkar nálgun í þessu máli snýr að því að komi upp áhyggjur af hlerun, hvernig viðkomandi fjarskiptafélag brást við því að rannsaka hvort þessar áhyggjur eru á rökum reistar eða ekki," segir Hrafnkell og kveðst ekki vilja tjá sig frekar um efnisatriði málsins meðan það sé ekki til lykta leitt. Hann segir það fara í ákveðið ferli. Þar komi fram sjónarmið þess sem vísaði málinu til PFS og það sé síðan sent til andmæla hjá félaginu.
„Þannig gengur þetta fram og til baka þar til málið telst fullrannsakað," úrskýrir Hrafnkell. „Síðan tekur PFS ákvörðun sem byggð er á efnisatriðum og lagaforsendum. Stofnunin túlkar hvort brotið hafi verið í bága við fjarskiptalög og -reglur eður ei."
Hrafnkell segir að reglur Póst- og fjarskiptastofnunar og innri verklagsreglur símafyrirtækja eigi að tryggja að menn geti svarað þeim spurningum sem fyrir þá eru lagðar, til dæmis með því að kanna atburðaskrár. „PFS hefur býsna víðtækar lagaheimildir til að skoða mál á eigin forsendum."
Í fjarskiptalögum er lagt bann við hlerun fjarskipta nema með samþykki notanda eða samkvæmt heimild í lögum. Þá er þar lögð rík þagnarskylda á starfsmenn símafyrirtækja og fyrirtækjunum gert að tryggja leynd fjarskipta.
Póst- og fjarskiptastofnun hefur ekkert reglubundið eftirlit með símhlerunum, þó að stofnunin hafi sett almennar reglur um hvernig þær skuli framkvæmdar. Lítill hópur starfsmanna símafyrirtækja framkvæmir hleranirnar, en ekki er kannað reglubundið innan fyrirtækjanna hvort starfsmennirnir misnoti aðstöðu sína.
Ekkert utanaðkomandi eftirlit
Ekkert utanaðkomandi eftirlit er með framkvæmd símhlerana. Póst- og fjarskiptastofnun hefur sett almennar reglur um framkvæmdina en sinnir ekki reglulegu eftirliti. Lítil hópur tæknimanna, sem stjórnendur fyrirtækjanna vita ekki hverjir eru, tengja þau símanúmer sem vilji er til að hlera við lögregluna að undangengnum úrskurði. Engin skipulögð leit fer fram innan fyrirtækjanna að sporum sem hleranir skilja eftir sig. Þetta kemur fram í svörum Símans, Vodafone, Nova og Tals við fyrirspurn Fréttablaðsins um málið.
Innlent