Viðskipti innlent

Lögfræðistofur græddu fjóra milljarða á tveimur árum

Logos er ein af stofunum sem græddi vel á hruninu.
Logos er ein af stofunum sem græddi vel á hruninu.
Níu lögfræðistofur högnuðust samtals um 1,7 milljarða króna á síðasta ári. Logos hagnaðist langmest þeirra allra í fyrra, um 633 milljónir króna. Þetta kemur fram í ársreikningum lögfræðistofanna. Þær eru Logos, BBA Legal, Lex, Mörkin, Réttur-Aðalsteinsson&Partners, Landslög, Juris, Sigurjónsson&Thor og Lögmál.

Bankahrunið sem átti sér stað í lok árs 2008 virðist hafa haft afar jákvæð áhrif á rekstrarafkomu flestra lögfræðistofanna níu. Samanlagt högnuðust þær um 3,7 milljarða króna á árunum 2009 og 2010. Flestar þeirra greiða allan hagnað út sem arð til eigenda sinna.

Logos, stærsta lögfræðistofa landsins, er í algjörum sérflokki þegar kemur að hagnaði. Stofan hefur grætt um 1,5 milljarða króna á þessum tveimur árum. Stjórn Logos lagði til að 90% hagnaðarins í fyrra yrðu greidd út sem arður til 16 eigenda stofunnar. Gangi það eftir mun hver þeirra fá um 35,6 milljónir króna í sinn hlut vegna árangurs Logos í fyrra.

BBA Legal hagnaðist næstmest þeirra stofa sem Fréttablaðið kannaði. Í fyrra skilaði stofan 252 milljóna króna hagnaði til viðbótar við þær 282 milljónir króna sem hún græddi árið 2009. Samanlagður hagnaður BBA Legal á árunum tveimur er því 534 milljónir króna. Eigendur stofunnar eru sex talsins. Þar af eiga tveir samtals 54% hlut.

Sú stofa sem skilaði þriðja mesta hagnaðinum var Lex lögmannsstofa. Hagnaður hennar í fyrra var 194 milljónir króna, sem var nokkru minna en árið áður þegar hún skilaði 291 milljón króna í hagnað. Á tveimur árum hefur Lex því halað inn 485 milljónir króna. Hluthafar Lex eru 17 talsins.

- þsj






Fleiri fréttir

Sjá meira


×