Innlent

800 ábendingar bárust vegna sameininga skóla

Um 800 ábendingar bárust frá foreldrum leikskóla- og grunnskólabarna, svo og starfsfólki leikskóla, grunnskóla og frístundaheimila í borginni, vegna undirbúnings um sameiningu stofnana í lærdómsumhverfi reykvískra barna. Ábendingargátt um verkefnið var opnuð á heimasíðu Reykjavíkurborgar í byrjun desember og er liður í samráðsferli um þetta verkefni.

Þetta kemur fram í tilkynningu á vef Reykjavíkurborgar.

Samráðsferlið hófst í nóvember 2010 þegar starfshópur um greiningu tækifæra til sameiningar skóla og frístundaheimila tók til starfa. Hann hóf starfið á því að ræða einslega við skólastjórnendur í borginni og deildarstjóra og forstöðumenn frístundamiðstöðvanna, alls 124 stjórnendur. Í þeim samtölum komu fram fjölmargar ábendingar. Í framhaldinu voru haldnir sex hverfafundir þar sem fulltrúar hvers grunnskóla, leikskóla og frístundaheimilis, foreldrar og starfsfólk, settust á rökstóla. Góð mæting var á þessa fundi og sátu þá hátt í þrjú hundrað manns.

Á öllum hverfafundum var greint frá markmiðum starfshópsins og opnað fyrir umræður um tækifæri í hverju hverfi til sameiningar, samþættingar og frekara samstarfs skólastofnana og frístundaheimila. Starfsfólk Menntasviðs, Leikskólasviðs og ÍTR tók við ábendingum og leiddi umræður. Í framhaldinu voru þátttakendur hvattir til að halda umræðunum áfram hjá þeim stofnunum sem þeir voru fulltrúar fyrir og senda ábendingar og tillögur í ábendingargátt starfshópsins. Í undirbúningsferlinu fóru líka út reglulegir upplýsingapóstar til stjórnenda, borgarfulltrúa, hverfaráða, þjónustumiðstöðva og embættismanna.

Starfshópurinn mun nýta þær hugmyndir, ábendingar og vangaveltur sem fram hafa komið í samráðsferlinu í lokaáfanga vinnu sinnar, en hann skilar borgarráði tillögum fyrir lok mánaðarins




Fleiri fréttir

Sjá meira


×