„Við erum öll að gera sitthvorn heimska hlutinn. Við borðum bara drasl og horfum bara á drasl,“ segir Róbert Örn Hjálmtýsson, forsprakki Hljómsveitarinnar Ég.
Sveitin hefur gefið út sína fjórðu plötu, Ímynd fíflsins. Þar syngur Róbert Örn um heimsku, kóngafólk, manninn og tengingu hans við sauðkindur og Hollywood-ást. Mynd af Róberti Erni sjálfum er á umslaginu. „Ég er ekki að þessu til að vera frægur,“ segir hann, spurður um myndina.
„Ég er pínulítið heppinn með það að stundum get ég fylgst með samfélaginu eins og ég sé gestur. En ég viðurkenni það reyndar oft á þessari plötu að ég er fíflið. Ég er ekkert að tala niður til fólks. Maður verður að viðurkenna að maður sé heimskur svo maður geti verið gáfaður,“ segir Róbert Örn, spekingslega.
Ímynd fíflsins hefur að geyma þrettán grípandi rokklög. Hún er metnaðarfyllsta plata Hljómsveitarinnar Ég, að mati Róberts Arnar. Það veit á mjög gott því síðustu tvær plötursveitarinnar, Plata ársins og Lúxus upplifun, voru tilnefndar til Íslensku tónlistarverðlaunanna sem plata ársins. Róbert Örn var einnig tilnefndur sem textahöfundur ársins. Lúxus upplifun hlaut jafnframt plötuverðlaun Kraums í fyrra.
Næstu tónleikar Hljómsveitarinnar Ég verða á Græna hattinum á Akureyri í kvöld og Gamla-Bauki á Húsavík á laugardagskvöld. Róbert Örn lofar góðri skemmtun og tekur fram að bandið sé kraftmikið á tónleikum og hljóðfæraleikararnir þrautþjálfaðir. - fb
Lífið