Fótbolti

Gremio játar sig sigrað - Ronaldinho fer til Flamengo

Elvar Geir Magnússon skrifar

Gremio í Brasilíu hefur staðfest að Ronaldinho sé ekki á leið til félagsins. Hann mun í staðinn ganga til liðs við Flamengo á næstu dögum. Adriano Galliani, varaforseti AC Milan, sagði í gær að Flamengo væri að vinna kapphlaupið um leikmanninn.

Gremio er í uppeldisbæ Ronaldinho en félagið hefur einfaldlega ekki efni á að borga þá upphæð sem AC Milan vill fá fyrir leikmanninn.

„Það virtist allt frágengið. Við vorum bara að bíða eftir að Ronaldinho skrifaði nafnið sitt undir. En hlutirnir breyttust skyndilega," segir Paulo Odone, forseti Gremio. „Flamengo er með öfluga styrktaraðila sem geta keypt upp samning Ronaldinho en við erum ekki í þeirri stöðu."

„Við fengum þau skilaboð að hann vildi enda ferilinn hjá sínu uppáhaldsfélagi, en því miður er það ekki að fara að gerast núna."

Ronaldinho er 30 ára gamall og býr yfir ótrúlegum hæfileikum. Hann náði þó ekki þeim hæðum sem búist var við og er því meðal annars kennt um að skemmtanalífið hefur náð að heilla hann.

Flamengo hefur fimm sinnum orðið brasilískur meistari, síðast 2009 en í fyrra var það Fluminense sem hampaði titlinum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×