Innlent

Menntamálaráðherra skrifar fræðigrein um Arnald Indriðason

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Katrín hlakkar mikið til að sjá nýja ritið, þar sem fræðigrein eftir hana er birt. Mynd/ Valli.
Katrín hlakkar mikið til að sjá nýja ritið, þar sem fræðigrein eftir hana er birt. Mynd/ Valli.
Fræðigrein eftir Katrínu Jakobsdóttur menntamálaráðherra um bækur Arnaldar Indriðasonar birtist í bókinni European Crime Fictions: Scandinavian Crime Fiction sem kom út rétt fyrir síðustu mánaðamót. Katrín segist bíða spennt eftir að sjá verkið, þegar Vísir innti hana eftir viðbrögðum við ritinu. Það sé mjög hátíðlegt að sjá fræðigrein eftir sjálfa sig.

„Þetta er sem sagt bara greinasafn um norrænar glæpasögur sem ég tók að mér að skrifa löngu áður en ég varð ráðherra. Meðgöngutími fræðibóka er dálítið langur og ég var að klára að ganga frá þessu 2009,"segir Katrín. Greinin fjallar um þjóðernismyndina í bókum Arnaldar Indriðasonar. Katrín segir að greinin byggi á meistararitgerð sinni, sem hún hafi síðan þróað í stutta fræðigrein. Síðan þá hefur greinin verið í stöðugum yfirlestri hjá ritrýnum. „Ég fékk hana alltaf endursenda í hausinn þannig að ég vona að hún sé orðin ásættanleg," segir Katrín. Katrín segir að bókin sé safn greina sem sé gefið út af University of Wales útgáfunni.

Aðspurð segir Katrín ekki geta sagt til um hvort Arnaldur sé uppáhalds rithöfundurinn sinn. „Ég veit það nú ekki en hann var meginviðfangsefni í meistararitgerðinni þannig að mér líður dálítið eins og hann sé hluti af mér," segir Katrín. Hún verði alltaf mjög spennt þegar ný bók eftir Arnald kemur út. Katrín segist þó ekki geta sagt til um hver besta bók Arnaldar sé. „Ég get eiginlega ekki gert upp á milli, en ég hef alltaf verð gríðarlegur aðdáandi Grafarþagnar," segir Katrín. Nýjasta bókin, Furðurstrandir, sé líka í miklu uppáhaldi.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×