Innlent

Snjómokstur í Reykjanesbæ kostar milljón á dag

Snjómokstur getur verið dýr. Myndin er úr safni.
Snjómokstur getur verið dýr. Myndin er úr safni. Mynd Bjössi Hal

Hver dagur í snjómokstri hjá Reykjanesbæ getur kostað um eina milljón króna þegar „allur flotinn" er kallaður út samkvæmt frétt sem birtist á vef Víkurfrétta, vf.is. Guðlaugur H. Sigurjónsson, framkvæmdarstjóri umhverfis- og skipulagssviðs Reykjanesbæjar, segir í samtali við Víkurfréttir að menn hafi verið heppnir með veðurfar að undanförnu.

„Við sýnum meira aðhald í snjómokstri og hálkueyðingu frá því sem áður var og reynum að fara skipulega í þetta verkefni. Einnig höfum við úr færri tækjum að moða, þar sem verktakar hafa minnkað við sig. Við munum þó ekki draga þannig úr þjónustu að hætta stafi af," segir Guðlaugur.

Þjónustumiðstöð Reykjanesbæjar hefur yfirumsjón með snjómokstri og hálkuvörnum á götum,gangstéttum og göngustígum bæjarins samkvæmt ákveðinni forgangsröðun.

Þær götur sem eru forgangi eru strætóleiðir, stofnbrautir og helstu tengibrautir sem liggja í átt að neyðarþjónustu s.s. sjúkrahúsi,lögreglu og slökkvistöð einnig þær götur sem liggja í átt að skólum og leikskólum. Þær götur sem liggja í brekku eru einnig í forgangi hvað varðar hálkueyðingu.

Leitast er við að bílastæði við grunn- og leikskóla sé einnig mokuð en það er ekki í forgangi oftast eru bílastæðin hreinsuð daginn eftir. Húsagötur eru ekki mokaðar nema að þær séu orðnar þungfærar. Ekki er mokað frá innkeyrslum og þurfa íbúar að sjá um það sjálfir. Við hálkueyðingu gatna er eingöngu notast við salt í eins litlu magni og mögulegt er.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×