Innlent

Tónlistarsala á Netinu: Besta árið hingað til

Tónlist.is hefur nú lokið uppgjöri fyrir árið 2010 en það er besta ár í sölu stafrænnar tónlistar frá upphafi. Í tilkynningu segir að aukning á sölu tónlistar milli árana 2009 og 2010 sé 27% en sú aukning er mun meiri en aukning á sölu stafrænnar tónlistar í heiminum á árinu sem leið. „Einnig stækkar hópurinn sem kýs að vera með tónlist í áskrift, greiða fast gjald og hlusta á allt efni sem er í boði á Tónlist.is. Íslenskir tónlistarmenn leið söluna eins og undanfarin ár, 80% sölunnar er íslenskt efni."

„Við hjá Tónlist.is sjáum fyrir okkur bjarta framtíð í sölu tónlistar á netinu þar sem við sjáum stöðugan vöxt í sölutölum okkar. Ef við skoðum 3 ár aftur í tímann þá hefur sala hjá okkur aukist um 195%. Þetta sýnir okkur að við erum á réttri leið með þá þjónustu sem við bjóðum upp á," segir ennfremur.

Þá segir að þessar upplýsingar séu fagnaðarefni þar sem þetta sýni að fjöldi fólks vilji nálgast tónlist löglega á netinu og að listamenn séu farnir að sjá æ meiri tekjur af sölu tónlistar á netinu með hverju árinu sem líður.

„Markmið okkar eru skýr en þau eru að veita góða þjónustu á góðu verði og vera með gott aðgengi að tónlist í gegnum netið, hvort sem það er í gegnum tölvu eða farsíma (snjallsíma). Á Tónlist.is er að finna yfir 5,3 milljónir laga á góðu verði, hvort sem þú kýst að kaupa efni eða vera með það allt í áskrift."

Tónlist.is.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×