Innlent

Oddný: Ekki tímabært að opinbera hugmyndirnar

Stjórnendur í leikskólum, grunnskólum og frístundaheimilum í Reykjavík, sem hugmyndir hafa komið fram um að verði sameinaðir öðrum skólum, fengu í gær bréf þar sem hugmyndirnar voru kynntar.

Oddný Sturludóttir, formaður menntaráðs Reykjavíkurborgar og starfshóps um greiningu tækifæra til endurskipulagningar á skóla- og frístundastarfi, segir ekki tímabært að gera hugmyndirnar opinberar að svo stöddu því enn sem komið er séu þær aðeins hugmyndir.

„Við höfum teiknað upp ótal tillögur. Stjórnendur hafa fengið að vita hvaða hugmyndir eru á borðinu sem tengjast þeirra skóla. Það er ekki þar með sagt að þær verði allar að endingu að veruleika," segir Oddný.

Bréfin voru send til stjórnenda í gær og segist Oddný ekki enn hafa fengið nein viðbrögð frá þeim við hugmyndunum. Þeir hafa verið boðaðir á fund með starfshópnum í næstu viku til að fara yfir hugmyndirnar.

Starfshópurinn hefur starfað frá í nóvember og hefur stjórnendum skólanna verið haldið upplýstum um gang mála, að sögn Oddnýjar. Hún segir breytingar alltaf vera viðkvæmt mál en misjafnt er hvernig skólastjórnendur hafa tekið því að sameiningar séu mögulegar. Sumir sjái tækifæri í þessum breytingum en aðrir hafi áhyggjur að þær skapi vanda.

Á sjötta tug hugmynda hafa verið settar fram en sumar þeirra tengjast fleiri en einu skóla. Hugmyndirnar taka flestar á sameiningu tveggja skóla, en í einstaka tilvikum er lagt til að þrír skólar verði sameinaðir. Hugmyndirnar ganga bæði út á sameiningu leikskóla við annan leikskóla, sameiningu grunnskóla við leikskóla eða jafnvel að frístundaheimili verði sameinað grunnskóla.

Starfshópurinn lýkur vinnu sinni í lok þessa mánaðar.


Tengdar fréttir

Rýnt í hugmyndir um sameiningu leikskóla

Verið er að kynna fyrir leikskóla- og grunnskólastjórum og stjórnendum frístundastarfs í borginni hugmyndir um sameiningu skólastofnana og frístundaheimila. Alls er um að ræða á sjötta tug hugmynda sem eru afrakstur af vinnu starfshóps um um greiningu tækifæra til sameiningar stofnana í lærdómsumhverfi barna og samráðsferlis undanfarinna mánaða meðal stjórnenda, foreldra og starfsfólks leikskóla, grunnskóla og frístundastarfs. Nú rýna 120 manns í 12 rýnihópum foreldra og starfsfólks sömu hugmyndir. Starfshópur um greiningu tækifæri til sameiningar stofnana í lærdómsumhverfi barna, hóf störf í nóvember og skilar hann tillögum sínum síðar í þessum mánuði. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Reykjavíkurborg.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×