Innlent

Býst ekki við því að Sjálfstæðisflokkurinn klofni

Karen D. Kjartansdóttir skrifar
Sjálfstæðisflokkurinn er ekki að fara klofna vegna Icesave málsins að mati stjórnmálafræðings sem telur ennfremur að Bjarni Benediktsson sé ekki að ganga gegn ályktun síðasta landsfundar.

Sjálfstæðisflokkurinn er ekki að klofna vegna Icesave-málsins, að mati Stefaníu Óskarsdóttur stjórnmálafræðings sem gegnt hefur trúnaðarstöfum fyrir flokkinn. Hún telur enn fremur að Bjarni Benediktsson sé ekki að ganga gegn ályktun síðasta landsfundar eins og hann er sakaður um í leiðara Morgunblaðsins í dag. Í leiðaranum sendir Davíð Oddsson, fyrrverandi formaður Sjálfstæðisflokksins og núverandi ritstjóri blaðsins, Bjarna heldur kaldar kveðjur. Meðal annars kallar hann Bjarna vikapilt Steingríms J. Sigfússonar fjármálaráðherra og í leiðaranum eru forystumenn Sjálfstæðisflokksins sagðir „trítla á eftir" Jóhönnu Sigurðardóttur forsætisráðherra.

„Ég vil benda á að sá landsfundur sem síðast var haldinn var aukalandsfundur, sem ekki var fjölmennur í sögulegu ljósi en það helgaðist meðal annars af því að til hans var boðað um mitt sumar. Fundurinn skilaði ekki ályktunum í öllum málaflokkum eins og venja er á landsfundum heldur var þar samin ein almenn stjórnmálaályktun. Þau orð sem vitnað er til af ýmsum um að Íslendingar eigi ekki að ganga að löglausum samningum er í raun bara hægt að finna í lítilli efnisgrein innan ályktunarinnar, sem fékk ekki ítarlega umræðu á sjálfum landsfundinum þó svo að til nokkurra orðaskipta hafi komið á sjálfum fundinum. En þetta var ekki rætt í málefnanefndum flokksins þannig að baki ályktuninni liggur ekki ígrunduð afstaða flokksstofnana," segir hún.

Þá telur Stefanía að sú ólga sem nú er uppi í flokknum sé ekki sú mesta sem komið hafi upp vegna málefnaágreinings. Stefanía nefnir sem dæmi að fiskveiðistjórnunarlögin hafi í gegnum tíðina orðið til þess að ýmsir hafi sagt sig úr flokknum og sú deila orðið til þess að Frjálslyndi flokkurinn var stofnaður.

Sagan eigi eftir að leiða það í ljós hvort Icesave-málið muni valda slíkum deilum. „Það hefur verið kallað eftir nýjum borgaralegum flokki á hægri vængnum. Ég dreg samt mjög í efa að þetta mál verði til þess," segir Stefanía.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×