Innlent

Ferðamannaárið hefst á miklum krafti - Eyjafjallajökli þakkað

Metfjöldi erlendra ferðamanna heimsótti Ísland í janúar og ríkir nú bjartýni í ferðaþjónustu um árið verði það besta frá upphafi. Ferðamálastjóri segir að eldgosið í Eyjafjallajökli ætla að reynast afar góð auglýsing.

Helstu fyrirtæki í ferðamannageiranum kynna um helgina fyrir erlendum kaupendum þá þjónustu sem þeir bjóða. Á kaupstefnu á vegum Icelandair eru saman komnir yfir 500 fulltrúar flugfélaga, hótela, veitingastaða, rútufyrirtækja, sjósiglinga, jeppaferða og annarra í þessari ört vaxandi atvinnugrein. Og árið byrjar af krafti.

Ólöf Ýrr Atladóttir ferðamálastjóri segir að nýjar tölur um ferðamannafjölda í janúar sýni tæplega 20 prósenta aukningu frá því í fyrra. Fólk í greininni beri sig mjög vel gagnvart sumrinu og menn horfi bjartsýnir til ársins. Þá skipti það máli að framboð á flugi sé mikið.

Hér tala menn um að eldgosið í Eyjafjallajökli hafi kannski ekki verið alslæmt. Er það kannski verðmætasta auglýsingin sem ferðaþjónustan gat fengið?

Ólöf Ýrr segir að oft sé haft á orði að einhver athygli sé betri en engin. Í þessu tilviki hafi eldgosið auglýst einkenni Íslands og íslenskrar náttúru sem aldrei fyrr.

"Já, ég held að þetta hafi, svona til langs tíma, gert okkur afar gott," segir ferðamálastjóri.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×