Innlent

Sautján svínaflensutilfelli á sex vikum

Flensa. Myndin er úr safni.
Flensa. Myndin er úr safni.

Sautján manns hafa greinst með svínaflensu á síðustu sex vikum samkvæmt upplýsingum á vef landlæknaembættisins en eftir áramótin varð nokkur aukning á fjölda þeirra sem leituðu læknis með inflúensulík einkenni. Fjórir greindust síðustu vikuna í janúar. Þar af var einn þungt haldin með flensuna.

Síðastliðnar tvær vikur, frá 17.-30. janúar hefur fjöldi venjulegra inflúensutilfella verið svipaður milli vikna samkvæmt frétt sem birtist á vef Landlæknaembættisins. Of snemmt er þó að segja hvort inflúensan hefur náð hámarki.

Eins og í heimsfaraldrinum haustið og veturinn 2009-2010 eru það aðallega börn og fólk undir sextugu sem er með einkenni inflúensu.

Tveir sjúklingar hafa verið lagðir inn á sjúkrahús með svínainflúensu staðfesta með sýnatöku. Sá sem fyrst lagðist inn var með væg einkenni og útskrifaðist eftir stutta legu. Svínainflúensa var síðar staðfest hjá konu með alvarleg veikindi sem var lögð inn 19. janúar og liggur hún enn á sjúkrahúsi.

Samkvæmt upplýsingum frá rannsóknarstofunni í veirufræði á Landspítala hafa 17 manns greinst með svínainflúensu, níu með inflúensu B og þrír með árlega inflúensu A(H3N2). Stök tilfelli adenóveiru- og parainflúensuveiru 1 sýkingu hafa einnig verið staðfest.

Síðastliðnar vikur hefur RS-veirusýking hefur verið staðfest á rannsóknarstofunni í veirufræði hjá um 20 manns, langflest tilfellin eru í ungum börnum frá 0 - 2ja ára. Samtímis hefur fjölgað tilfellum sem líklega eru með RS veiru sýkingu samkvæmt klínísku mati læknis.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×