Skoðun

Strangara mat á hæfi og hæfni stjórnarmanna

Rúnar Guðmundsson skrifar
Sú ákvörðun ríkisstjórnar Íslands að grípa til sértækra ráðstafana vegna eldra Sjóvár Almennra trygginga hf. á árinu 2009, sem var með um 30% markaðshlutdeild og uppfyllti ekki skilyrði til áframhaldandi vátryggingastarfsemi, hefur verið gagnrýnd að undanförnu. Ráðstafanir ríkisstjórnar voru m.a. að teknu tilliti til hagsmuna viðskiptavina (vátryggingartaka, vátryggðra, tjónþola) í því neyðarástandi sem skapaðist hér landi í framhaldi af bankahruninu. Þessi ráðstöfun er til athugunar hjá Eftirlitsstofnun EFTA og er niðurstöðu hennar að vænta innan tíðar.

Örlög eldra Sjóvár Almennra trygginga hf. og fleiri eftirlitsskyldra aðila t.d. Sparisjóðs Keflavíkur, svo annað nýlegt dæmi sé tekið, sýna að ekki er vanþörf á ströngu eftirliti með fjármálamarkaðnum hér á landi í víðtækri merkingu þess orðs. Það má og minna á hversu hlutverk stjórnenda og stjórnarmanna er mikilvægt og hversu áríðandi það er að allir haldi vöku sinni og geri sér grein fyrir þeirri ríku ábyrgð sem fylgir t.d. stjónarsetu.

Það þarf ekki að taka langan tíma að eyðileggja fjárhagsstöðu vátryggingafélags, fjármálafyrirtækis og fleiri aðila ef eðlilegum starfsháttum er ekki fylgt og jafnvel stigið út fyrir ramma laganna. Þetta getur til dæmis gerst með því að stjórnendur misnota aðstöðu sína, fjárfesta með ólögmætum hætti, gefa rangar eða villandi skýrslur og með því að forstjóri eða stjórnarmenn sinna ekki hlutverki sínu og Fjármálaeftirlitinu er ekki tilkynnt um atriði sem hafa úrslitaþýðingu fyrir áframhaldandi rekstur þrátt fyrir skýr lagafyrirmæli um tilkynningarskyldu og/eða fyrirspurnir eftirlits.

Dæmi er um stjórnir eftirlitsskyldra aðila sem virðast hafa verið óvirkar á liðnum árum þrátt fyrir augljós merki um erfiðleika fyrirtækjanna. Einstaka stjórnarmenn virðast hafa litið á það sem rós í hnappagatið að setjast í stjórn. Þeir hafa ekki beitt sér og hafa ekki haft neina tilburði til að fara gegn straumnum. Liður í uppbyggingu heilbrigðs fjármálakerfis á Íslandi er að á þessu verði meginbreyting. Stjórnarmenn fyrirtækja verða að hafa kjark, þeir þurfa að spyrja nauðsynlegra spurninga og setja fram gagnrýni þegar við á. Þeir þurfa að stýra starfsemi félagsins og sinna mikilvægu eftirlitshlutverki sínu og taka meiriháttar ákvarðarnir líkt og lög gera ráð fyrir.

Til þess að ýta undir þetta hefur Fjármálaeftirlitið tekið upp breytt verklag varðandi framkvæmd athugunar á hæfi og hæfni stjórnarmanna eftirlitsskyldra aðila. Hið breytta verklag var tekið upp snemma árs 2010.

Það felur í sér að tilteknir stjórnarmenn eru teknir í viðtal hjá þriggja manna ráðgjafarnefnd sem komið var á fót af Fjármálaeftirlitinu í þessum tilgangi. Nefndin veitir eftirlitinu umsögn um hæfi viðkomandi stjórnarmanns og er hún höfð til hliðsjónar við ákvörðun Fjármálaeftirlitsins um hæfi viðkomandi.

Markmiðið með þessu „munnlega prófi" er meðal annars að ganga úr skugga um að stjórnarmenn geri sér grein fyrir mikilvægu hlutverki sínu. Þekking þeirra er vandlega könnuð á hinni eftirlitsskyldu starfsemi almennt og starfsemi þess fyrirtækis sem í hlut á sérstaklega.

Þekking þeirra í reikningsskilum er einnig könnuð. Þá er farið yfir skilning þeirra á hlutverki, ábyrgð og helstu verkefnum stjórnar og einstakra stjórnarmanna. Að lokum er sjálfstæði þeirra, dómgreind og viðhorf könnuð.

Ráðgjafarnefndin athugaði á síðasta ári hæfi fjölda stjórnarmanna. Margir þeirra stóðu sig vel en í all mörgum tilvikum stóðust þeir ekki hæfismat og var þeim þá gefinn kostur á að reyna aftur síðar.

Skýrsla Rannsóknarnefndar Alþingis er upplýsandi um hvernig fyrir var komið á fjármálamarkaði hér á landi. Af skýrslunni má draga margvíslegan lærdóm. Hana má nota sem alvarlega áminningu um hið liðna og handbók vegna þess sem koma þarf. Skýrslan setur m.a. fram gagnrýni á starfsemi Fjármálaeftirlitsins.

Eftirlitið tekur mark á þeirri gagnrýni og hefur fært tiltekna hluti til betri vegar. Ríkari áhersla er nú en áður á virkt eftirlit og meiri staðfestu. Í því samhengi er athygli vakin á ársskýrslu Fjármálaeftirlitsins fyrir árið 2010 og stefnu Fjármálaeftirlitsins 2010.

Löggjöf um fjármálastarfsemi og vátryggingastarfsemi var endurskoðuð í tengslum við bankahrunið. Fjármálaeftirlitinu var meðal annars fengið aukið hlutverk, fyllri reglur voru settar um eftirlitsskylda aðila t.d. varðandi neytendavernd, viðskiptahætti, viðskipti við tengda aðila, fjárfestingarstefnu, starfskjarastefnu og svo framvegis.

Mikil vinna hefur einnig farið fram innan Fjármálaeftirlitsins við endurskipulagningu og endurbætur á verklagi stofnunarinnar og er athugun á hæfi og hæfni stjórnarmanna sem lýst er hér að framan eitt dæmi um það. Tíminn mun leiða í ljós hvernig takast mun til við fjármálaeftirlit á Íslandi en fullyrða má að nú er lag og nú er nauðsyn.

 




Skoðun

Skoðun

Kona, vertu ekki fyrir!

Elín Björg Jónsdóttir,Halldóra Sigríður Sveinsdóttir,Hrafnhildur Lilja Harðardóttir skrifar

Sjá meira


×