Innlent

ASÍ átti von á tölum um þörf í stað neyslu

Gylfi Arnbjörnsson, forseti ASÍ.
Gylfi Arnbjörnsson, forseti ASÍ. Mynd/GVA

Velferðarráðuneytið kynnti í gær ný neysluviðmið fyrir Íslendinga sem hópur sérfræðinga hefur reiknað út. Við útreikning neysluviðmiðanna var stuðst við rannsóknir Hagstofunnar á raunverulegri neyslu og gefin upp miðgildi miðað við ýmsar aðstæður. Kemur meðal annars fram að meðaltalsgildi neyslu fjölskyldu með tvö börn er 618 þúsund krónur á mánuði.

Guðbjartur Hannesson velferðarráðherra segir þetta fyrsta skrefið til að finna viðmið til að byggja bóta- og almannatryggingakerfið á „og þess vegna inn í kjarasamninga", eins og ráðherrann orðar það.

„Sem innlegg í umræðu er þetta allt í lagi en er ekkert sem hönd er á festandi varðandi kjarasamninga," segir Gylfi Arnbjörnsson, forseti ASÍ. „Þessi nefnd er búin að vera að störfum frá því í fyrrasumar og menn áttu von á að það yrði varpað einhverju skýrara ljósi á það hvað það er sem fjölskyldan þarf til þess að geta verið eðlilegur þátttakandi í samfélaginu. Þetta segir ekkert til um það hvað þurfi heldur bara hvað er."

Guðmundur Magnússon, formaður Örykjabandalags Íslands, segir viðmiðin geta orðið góðan grunn til að byggja á þótt ýmsa útgjaldaliði vanti. „Þetta er eitthvað sem við getum treyst á. Síðan þurfum við að vera dugleg að koma með það sem þarf að bæta þarna í og tryggja að stjórnvöld viðurkenni það. Þá ætti þetta að vera eitthvað sem bæði við og verkalýðshreyfingin ættum að geta notað í framtíðinni."

- gar /








Fleiri fréttir

Sjá meira


×