Erlent

Hani stakk mann til bana

Hanarnir eru oft með beitta hnífa festa við lappirnar.
Hanarnir eru oft með beitta hnífa festa við lappirnar. MYND/AP

Maður sem tók þátt í ólöglegu hanaati í Kalíforníu lést á dögunum þegar haninn hans stakk hann í fótinn. Maðurinn hafði fest beitta hnífa á lappir hanans til þess að útbúa hann fyrir atið. Haninn réðst þá að manninum og stakk hann.

Maðurinn var fluttur á sjúkrahús eftir nokkurt þóf, því hanaat er bannað í Bandaríkjunum og óttuðust aðstandendur mótsins að lenda í vandræðum. Tveimur tímum síðar var maðurinn kominn á sjúkrahús en þá var of seint að bjarga honum og var hann úrskurðaður látinn skömmu eftir komuna á spítalann.

Andlát af þessu taginu eru þó ekki óþekkt, því í síðasta mánuði lést maður við sömu iðju á Indlandi. Sá varð fyrir árás hana sem hann hafði fest á rakvélarblöð. Skipti engum togum að haninn skar manninn á háls og lést hann samstundis.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×