Innlent

Nær að hafa áhyggjur af fjármögnun Búðarhálsvirkjunar

Steingrímur J. Sigfússon.
Steingrímur J. Sigfússon.
Steingrímur J. Sigfússon fjármálaráðherra segir fjármögnun Búðarhálsvirkjunar nærtækara áhyggjuefni en virkjanir í neðri Þjórsá. Stjórnarandstöðuþingmaður spyr hvort umhverfisráðherra hafi sama hlutverk og landsliðsmarkmaðurinn í auglýsingunni; að vera fyrir.

Í umræðum á Alþingi í gær um dóm Hæstaréttar gegn Svandísi Svavarsdóttur umhverfisráðherra spurði Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, um hver stefna ríkisstjórnarinnar væri í nýtingunni orkunnar í neðri Þjórsá. og hvort það væri stefnan að orkan yrði nýtt til að skapa verðmæti, búa til ný störf og laða hingað heim fjárfestingu.

Steingrímur J. Sigfússon fjármálaráðherra sagði að varðandi virkjun neðri hluta Þjórsár lægi fyrir sú yfirlýsta stefna og samkvæmt henni er unnið, bæði af hálfu stjórnvalda og Landsvirkjunar, að engar frekari ákvarðanir yrðu teknar þar um virkjanir eða nýtingu fyrr en að aflokinni vinnu við rammaáætlun. Þar yrðu vegin nýtingarsjónarmið, arðsemi og náttúruvernd.

"Ætli Landsvirkjun hafi ekki nóg með að vinna úr þeim verkefnum sem hún er með framar í röðinni eins og að tryggja fulla fjármögnun á Búðarhálsvirkjun og í framhaldinu setur Landsvirkjun mikla fjármuni í rannsókn á háhitasvæðunum í Þingeyjarsýslum," sagði Steingrímur og bætti við: "Ætli það sé ekki nærtækara áhyggjuefni fyrir háttvirta þingmenn hvernig úr þeim málum verði leyst og þarf annað til en þá þrætu sem hér er uppi." Framsóknarþingmaðurinn Sigurður Ingi Jóhannsson rifjaði upp að umhverfisráðherra hefði sagst í fréttum ætla að vera áfram í vinnunni sinni og spurði:

"Er það eins og með landsliðsmarkmanninn sem sagt var í auglýsingunni að hefði það verkefni að vera fyrir? Er það áfram verkefni umhverfisráðherra að vera fyrir atvinnuuppbyggingu í landinu?"

Utandagskrárumræða fer fram á Alþingi í dag um dóm Hæstaréttar um skipulag Flóahrepps þar sem umhverfisráðherra verður til svara.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×