Fótbolti

Man. United kemst ekki bakdyramegin inn í Meistaradeildina

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Wayne Rooney.
Wayne Rooney. Mynd/Nordic Photos/Getty
Svissneska knattspyrnusambandið hefur orðið við beiðni UEFA og er búið að taka 36 stig af Sion-liðinu fyrir að tefla fram ólöglegum leikmönnum. UEFA hafði kastað Sion út úr Evrópudeildinni og var búið að hóta því að gera hið sama við önnur svissnesk lið, myndi svissneska sambandið ekki refsa Sion.

Sion var með 31 stig út úr fyrstu 18 leikjum sínum en eftir að liðið missti 36 stig er það nú eitt á botni svissnesku úrvalsdeildarinnar með mínum fimm stig. Það gæti því orðið afar strembið fyrir Sion menn að halda sér í deildinni.

Hefði svissneska sambandið ekki tekið á þessu máli hefði UEFA rekið öll svissnesku liðin út úr Evrópukeppnunum en þar á meðal var lið Basel sem hafði betur í baráttunni við Manchester United um sæti í sextán liða úrslitum Meistaradeildarinnar.

Manchester United sá því von um að komast í bakdyramegin inn í Meistaradeildina en nú er endanlega orðið ljóst að lærisveinar Sir Alex Ferguson verða að sætta sig við það að keppa í Evrópudeildinni eftir áramót.

Sion hefur staðið í deilum við Alþjóða knattspyrnusambandið eftir að félagið braut reglur FIFA og keypti sex leikmenn þegar félagið var í félagsskiptabanni. Sion notaði fimm leikmannanna í undankeppni Evrópudeildarinnar og var því dæmt úr leik. Forráðamenn svissneska liðsins fóru með málið fyrir almenna dómstóla sem vakti litla hrifningu hjá forráðamönnum UEFA og FIFA.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×