Innlent

Rangárþing ytra vill fá Náttúruminjasafnið á Hellu

Heimamenn vilja fá að minnsta kosti hluta af Náttúruminjasafni Íslands á staðinn. FRéttablaðið/Heiða
Heimamenn vilja fá að minnsta kosti hluta af Náttúruminjasafni Íslands á staðinn. FRéttablaðið/Heiða
„Náttúruminjasafni Íslands yrði meiri sómi sýndur með því að staðsetja það á Hellu heldur en í Reykjavík,“ segir sveitarstjórn Rangárþings ytra.

„Telur sveitarstjórn að aðsókn ferðamanna gæti verulega aukist með staðsetningu á Hellu sérstaklega í því ljósi að betra er að vera stór fiskur í lítilli tjörn en lítill fiskur í stórri og hér væri safnið í sínu rétta náttúrulega umhverfi,“ segir sveitarstjórnin og bendir á að Skógasafnið sé líkast til eina safnið á Íslandi sem rekið sé með rekstrarafgangi. „Þannig að það er ekki ávísun á velgengni að staðsetja safn í Reykjavík.“

Gunnsteinn R. Ómarsson sveitarstjóri ritaði Náttúruminjasafninu bréf í lok desember síðastliðins vegna málsins. Dr. Helgi Torfason safnstjóri segir í svari til Gunnsteins að miklu skipti fyrir safnið að vera í nánu sambandi við rannsóknarstofnanir, önnur söfn og aðila sem starfi á líkum sviðum.

„Í dag hefur Náttúrminjasafnið aðsetur á lóð Háskóla Íslands og getur varla verið betur staðsett, þótt húsrými, aðstöðu, gripi og starfsfólk vanti ennþá,“ skrifar dr. Helgi sem kveður það sína skoðun að höfuðsafn þjóðarinnar á sviði náttúruvísinda eigi að vera miðsvæðis í höfuðborginni. „Það er ekki tilviljun að erlendis eru höfuðsöfn miðsvæðis í höfuðborgum.“

Safnstjórinn segist þó vonast til góðrar samvinnu við Rangæinga. Þrátt fyrir bréf dr. Helga segist sveitarstjórnin enn telja að safnið væri betur komið á Hellu. - gar



Fleiri fréttir

Sjá meira


×