Innlent

Fjarlægja óætar furuhnetur

Furuhnetur eru á markaði hér, sem ekki eru hæfar til manneldis.
Furuhnetur eru á markaði hér, sem ekki eru hæfar til manneldis.
Matvælastofnun vinnur nú að því í samvinnu við innflytjendur og heilbrigðiseftirlit sveitarfélaga að finna furuhnetur á markaði sem valda óbragði í munni og fjarlægja þær.

Þetta kemur fram á heimasíðu Matvælastofnunar. Fjöldi tilkynninga hefur borist í gegnum viðvörunarkerfi Evrópu og einnig frá Bandaríkjunum frá árinu 2009 um furuhnetur sem geta brenglað bragðskyn og valdið óbragði í munni í allt að fjórar vikur eftir neyslu. Grunur leikur á að tvær tegundir furuhnetna, Pinus armandii og Pinus massoniana, sem fundist hafa í blöndu af furuhnetum séu orsakavaldur en þær eru ekki taldar hæfar til manneldis.

Talið er að umræddar hnetur eigi uppruna að rekja til Kína. Vitað er til þess að fólk hér á landi hafi neytt furuhnetublöndu og verið með viðvarandi óbragð í munni eftir neysluna. Þess ber að geta að venjulegar furuhnetur, Pinus koraiensis, eru ætlaðar til manneldis og valda ekki þessum skaða.

Þeir sem verða varir við brenglað bragðskyn eftir neyslu á furuhnetum eru beðnir um að setja sig í samband við Matvælastofnun eða heilbrigðiseftirlit viðkomandi svæðis. - jss



Fleiri fréttir

Sjá meira


×