Erlent

Dauðarefsingin afnumin í Illinois

Dauðarefsingin hefur verið afnumin í Illinois í Bandaríkjunum. Það var ríkisstjórinn Pat Quinn sem tók ákvörðunina en hann hefur hingað til  verið hliðhollur því að dæma menn til dauða fyrir alvarlega glæpi. Tekist hefur verið á um málið í tvo áratugi í ríkinu en Quinn tók ákvörðunina á þeim grundvelli að líkur séu á því að saklausir menn verði teknir af lífi.

Ákvörðun ríkisstjórans mun losa fimmtán menn úr snörunni en þeir höfðu allir verið dæmdir til dauða. Í stað þess verða þeir í fangelsi til æviloka og eygja enga von um náðun. Ákvörðun ríkisstjórans er umdeild í ríkinu en hann stendur fast á sínu og bendir á að 20 manns sem áður höfðu verið dæmdir til dauða hafi veið sýknaðir á síðari stigum síðustu ár.

Illinois er 16. ríki Bandaríkjanna ekki leyfir dauðarefsingar, New Jersey og New York afnámu refsinguna árið 2007 og Nýja Mexíkó fylgdi í kjölfarið árið 2009. 12 hafa verið teknir af lífi í ríkinu frá því refsingin var tekin upp að nýju árið 1977 sá síðasti árið 1999.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×