Innlent

Fréttaskýring: Landbúnaðarstefna ESB til grundvallar

Íslendingar fallast á að vinna út frá sameiginlegri landbúnaðarstefnu ESB en minna á mikilvægi tollverndar.Nordicphotos/afp
Íslendingar fallast á að vinna út frá sameiginlegri landbúnaðarstefnu ESB en minna á mikilvægi tollverndar.Nordicphotos/afp
Hverju vill landbúnaðarráðherra ná fram í viðræðum við ESB?

Á rýnifundi Íslands og ESB í Bruss­el fyrir mánaðamót var íslenski samningahópurinn um landbúnaðarmál spurður af viðsemjendum sínum hvort Ísland féllist á sameiginlega landbúnaðarstefnu ESB sem grundvöll aðildarviðræðna.

Svarið var já, en formaður samningahópsins segir það hafa verið með ströngum fyrirvörum. „Við svöruðum því til að Íslendingar, með ótal sterkum fyrirvörum, geri sér grein fyrir því að Evrópulöggjöfin myndi grundvöll að þessum viðræðum og það var ekki gerð athugasemd við það svar," segir Sigurgeir Þorgeirsson, formaður samningahóps landbúnaðarmála, en hann er einnig ráðuneytisstjóri í sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytinu.

Þar með er ekki sagt að einhugur ríki um þessa niðurstöðu við ríkisstjórnarborðið. Jón Bjarnason landbúnaðarráðherra sagði á opnum fundi Ísafoldar í vikunni að hann vildi að það yrðu ávallt íslensk lög sem réðu um tilhögun landbúnaðar á Íslandi. Um þetta hefði „verið ágreiningur og er enn".

Jón sagði þar: „Við sækjum um á forsendum ESB og það er bara þannig. Ég er ekki sammála því að við ættum að gera það en það eru þær reglur sem lagt er upp með."

Þegar yfirstandandi samanburði á lögum Íslands og ESB lýkur vill Jón ekki bara setja markmið heldur klár skilyrði fyrir áframhaldandi viðræðum: „Undanþágur frá lögum ESB, sem ekki eru bundnar íslenskum lögum, eru meira og minna tímabundnar. Hvort þær eru tíu eða fimmtíu er ekki meginmálið. Við ætlum að eiga okkar óskoraða forræði í þessum málaflokkum," segir Jón og telur meðal annars upp landbúnað, sjávarútveg og heilbrigðismál. Skilyrðin eigi að hafa „varanlega lögbundna sérstöðu".

Haraldur Benediktsson, formaður Bændasamtakanna, segir svar samningahópsins ekki koma á óvart. „Þetta höfum við alltaf sagt. Þegar sótt er um aðild að ESB þá er bara ESB í boði. ESB sótti ekki um aðild að Íslandi." Hann segir meirihlutaálit utanríkismálanefndar Alþingis „draumóraályktun". Ekki náist allt fram sem þar er beðið um í landbúnaðarmálum.klemens@frettabladid.is




Fleiri fréttir

Sjá meira


×