Innlent

Tugir segja sig úr Sjálfstæðisflokknum

Kristján Þór Júlíusson, situr í fjárlaganefnd fyrir Sjálfstæðisflokkinn.
Kristján Þór Júlíusson, situr í fjárlaganefnd fyrir Sjálfstæðisflokkinn.

Mikil óánægja er meðal sumra sjálfstæðismanna vegna afstöðu flokksins í Icesave málinu. Þrjátíu manns hafa sagt sig úr flokknum í dag. Kristján Þór Júlíusson segir óánægju innan flokksins ekki hafa farið framhjá neinum.

Kristján er einn þeirra þriggja Sjálfstæðismanna sem sitja í Fjárlaganefnd og sendu frá sér álit í gær að rétt væri að samþykkja nýja Icesave frumvarpið.

Sú ákvörðun hefur vakið mikla reiði meðal Sjálfstæðismanna. Sigríður Þorsteinsdóttir forstöðumaður samskiptasviðs segir í samtali við fréttastofu að þrjátíu manns hafi sagt sig úr flokknum í dag. Og formaður flokksins, Bjarni Benediktsson, hefur verið harðlega gagnrýndur.

Spurður út í viðbrögð flokksmanna segir Kristján: „Sú óánægja hefur ekki farið fram hjá neinum." Hann segist hafa fullan skilning á því fólk sé reitt. „Ég hef samt ekki séð rökstuðning neins þeirra sem hafa sagt sig úr flokknum. Þetta er val hvers og eins."

Spurður út í afstöðu sína til Icesave samkomulagsins segir Kristján:

„Ég kýs að svara ekki þeirri spurningu. Ég stend hins vegar að þessu áliti og ég vil undirstrika að í þessu máli sem við höfum rætt í tvö ár kemur ekki fram svona tillaga öðruvísi en að höfðu samráði við þingflokk viðkomandi nefndarmanna."

Kristján segir skýrt að „tillagan kemur fram í umboði þingflokksins."

Nú stendur yfir önnur umræða um Icesave á Alþingi en Kristján Þór er á Akureyri, veikur með flensu, og getur því ekki tekið þátt í umræðunum.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×