Innlent

Neytendasamtökin vilja taka upp Skráargatið

Notkun Skráargatsins myndi gera fólki auðveldara fyrir að velja hollan mat
Notkun Skráargatsins myndi gera fólki auðveldara fyrir að velja hollan mat
Neytendasamtökin hafa ítrekað hvatt til þess að hollustumerkið Skráargatið verði tekið upp á Íslandi. Merkið er valkvætt fyrir framleiðendur og einungis þau matvæli sem eru hollust í sínum flokki mega bera það.

Skráargatið er nú samnorrænt en Danir og Norðmenn ákváðu nýlega að feta í fótstpor Svía sem notað hafa merkið með góðum árangri í tvo áratugi. Íslandi bauðst að taka þátt en því miður varð ekkert úr því. Ekkert er þó því til fyrirstöðu að taka merkið upp núna og því hvetja Neytendasamtökin stjórnvöld til að greiða fyrir málinu.

Í grein sem forsvarsmenn Neytendasamtakanna rita á vefsíðu samtakanna segir að það skjóti skökku við að á sama tíma og Íslendingar eru hvattir til að borða hollan og góðan mat sé lítið gert til að auðvelda fólki að fylgja slíkum ráðum.

Auk Neytendasamtakanna hafa meðal annars Lýðheilsustöð, Manneldisráð, talsmaður neytenda og talsmaður barna talað fyrir merkinu. Þá lagði faghópur um lýðheilsu, sem forsætisráðherra skipaði árið 2005, einnig til að Skráargatið yrði tekið upp. Áhugaleysi stjórnvalda er óskiljanlegt að mati Neytendasamtakanna, sérstaklega í ljósi þess að ráðleggingar um innleiðingu merkisins koma ekki síst frá fagaðilum sem heyra undir stjórnvöld.

Neytendasamtökin senda nú erindi í fjórða sinn á sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra og krefjast svara frá stjórnvöldum. Ef þau eru andvíg því að hollustumerking verði tekin upp vilja samtökin fá rökstuðning fyrir því. Afrit er einnig sent á velferðarráðherra og forsætisráðherra auk þingmanna í heilbrigðis-, og sjávarútvegs- og landbúnaðarnefnd.

Stofnuð hefur verið Facebook-síða þar sem hvatt er til þess að hollustumerkið Skráargatið verði tekið upp hér á landi. Sjá hér




Fleiri fréttir

Sjá meira


×