Innlent

Ekki verður hægt að fletta sér upp

Hallur Hallsson
Hallur Hallsson
Ekki stendur til að gera fólki kleift að slá nafni sínu eða kennitölu upp á vefnum kjosum.is, þar sem safnað er undirskriftum fyrir þjóðaratkvæðagreiðslu um Icesave, svo það geti gengið úr skugga um að það hafi ekki verið skráð á listann að sér forspurðu. Þetta segir Hallur Hallsson, einn þeirra sem standa að undirskriftasöfnuninni.

„Við könnum öll nöfn og kennitölur og við höfum allar IP-tölur,“ segir Hallur. „Sjáum við eitthvað grunsamlegt förum við í saumana á því og virtur óháður aðili fer í gegnum listana. Það hefur aldrei staðið til að fólk úti í bæ geti farið í gegnum þessa lista, til dæmis atvinnurekendur enda færi það gegn lögum um persónuvernd. Við virðum trúnað við fólk.“

Í fyrra stóðu InDefence-samtökin fyrir sambærilegri söfnun og brugðust þá við gagnrýni með því að setja upp kerfi þar sem fólk gat slegið inn kennitölu sína og fengið að vita hvort það væri skráð.

Hægt er að misnota nýja listann og hafa aðstandendur hans kært slíka misnotkun til lögreglu.

Í gærkvöldi höfðu yfir 35 þúsund nöfn verið skráð á listann á vefnum. Það eru fleiri en hvöttu forsetann til að vísa fjölmiðlalögunum til þjóðarinnar 2004. Við þeirri kröfu varð hann.

Samkvæmt könnun sem MMR gerði fyrir Andríki telja 62 prósent eðlilegt að þjóðin fái að segja álit sitt á samningnum í þjóðaratkvæðagreiðslu.- sh



Fleiri fréttir

Sjá meira


×