Innlent

Um 12% nauðgunarmála enda með dómi

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Um 12% þeirra nauðgunarmála sem tilkynnt voru til lögreglu árið 2008, enduðu með dómi. Þetta kemur fram í upplýsingum sem embætti ríkislögreglustjóra og lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu hafa tekið saman um feril þeirra kynferðisbrota sem tilkynnt voru til lögreglu.

Alls voru 368 kynferðisbrot tilkynnt til lögreglu árið 2008. Þar af voru 68 nauðganir og 33 misneytingar. Flest atvikin, eða 71%, áttu sér stað árið sem brotið var tilkynnt, en 13% árið 2007 og 16% á árunum 1971-2006.

Af þeim 68 nauðgunum sem tilkynntar voru hætti lögreglan rannsókn eða vísaði frá máli í 43 tilvikum, eða í 63% tilvika. Fjórðungur þessara brota var felldur niður hjá ríkissaksóknara en í 12% brotanna féll dómur. Hærra hlutfall misneytingarmála fer áfram til ríkissaksóknara en nauðgunarmála, eða 72% á móti 37%. Í 42% tilvika um misneytingu var málið fellt niður hjá ríkissaksóknara en í 30% féll dómur.

Í öðrum kynferðisbrotum en nauðgunum og misneytingum var rannsókn hætt eða máli vísað frá hjá lögreglu í 35% tilvika, sem er hærra hlutfall en í nauðgunar- og misneytingarmálum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×