Innlent

Opinn fundur um atvinnuleið SA

Vilhjálmur Egilsson, framkvæmdastjóri SA.
Vilhjálmur Egilsson, framkvæmdastjóri SA.

Samtök atvinnulífsins efna til opins fundar um atvinnuleiðina á miðvikudaginn kemur klukkan 8:30 og stendur fundurinn til klukkan tíu. Fundurinn fer fram á Grand Hótel Reykjavík en atvinnuleiðin er sýn Samtaka atvinnulífsins á leiðina út úr kreppunni.

Í tilkynningu frá SA segir að á fundinum fjalli stjórnendur fyrirtækja á ýmsum sviðum um mikilvægi þess að landsmenn velji að fara atvinnuleiðina í stað verðbólguleiðarinnar „með viðvarandi stöðnun í þjóðfélaginu og miklu atvinnuleysi næstu árin," eins og það er orðað í tilkynningu.

Meðal þeirra sem taka þátt eru Birkir Hólm Guðnason, framkvæmdastjóri Icelandair, Kristín Guðmundsdóttir, forstjóri Skipta, Bolli Árnason, framkvæmdastjóri GT Tækni og Pétur Pálsson, framkvæmdastjóri Vísis í Grindavík.

Þá munu Vilmundur Jósefsson, formaður SA og Vilhjálmur Egilsson, framkvæmdastjóri SA, ræða um stöðuna í atvinnulífinu og yfirstandandi kjaraviðræður auk þess að svara fyrirspurnum.

Boðið verður upp á léttan morgunverð frá kl. 8:00. Fundurinn er öllum opinn en nauðsynlegt er að skrá þátttöku á vef SA.

Stjórnendur og forsvarsmenn fyrirtækja, stórra sem smárra, eru hvattir til að mæta og taka þátt ásamt öllu áhugafólki um uppbyggingu atvinnulífsins.

Hér er hægt að skrá sig á fundinn.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×