Innlent

Svekkelsi á Skjánum

Ekki edduvænn Kristjana Thors Brynjólfsdóttir, dagskrárstjóri Skjás eins, segir Skjá einn ekki alltaf hafa verið Edduvænan. Sjónvarpsstöðin hlaut enga tilnefningu til Edduverðlauna í ár.Fréttablaðið/GVA
Ekki edduvænn Kristjana Thors Brynjólfsdóttir, dagskrárstjóri Skjás eins, segir Skjá einn ekki alltaf hafa verið Edduvænan. Sjónvarpsstöðin hlaut enga tilnefningu til Edduverðlauna í ár.Fréttablaðið/GVA
„Að vissu leyti eru þetta auðvitað vonbrigði og mér finnst eiginlega leiðinlegast að fólkið bak við Hæ Gosi skuli ekki vera tilnefnt," segir Kristjana Thors Brynjólfsdóttir, dagskrárstjóri Skjás eins.

Sjónvarpsstöðin er ekki tilnefnd til neinna Edduverðlauna í ár og það er einstakt. Kristjana vill ekki meina að Skjárinn hafi boðið áhorfendum sínum upp á verra sjónvarpsefni síðasta árið, Eddan hafi einfaldlega aldrei verið viðmið hjá stöðinni. „Áhorfið og áhorfendur hafa alltaf skipt okkur mestu máli og þegar áhorfið fer vaxandi, eins og við höfum séð, þá erum við að gera eitthvað rétt."

Kristjana segist telja að Skjár einn sé að framleiða vandað sjónvarpsefni þótt Akademían hafi horft fram hjá því í ár og hún bendir á að Skjárinn hafi ekki alltaf verið Edduvænn. Hún segir enn fremur að markmiðið sé ekki að Skjár einn raki til sín tilnefningum, mikilvægara sé að fólkið á bak við þættina fái þær viðurkenningar sem það eigi skilið.

Stöð 2 og RÚV einoka Eddutilnefningarnar hvað sjónvarp varðar í ár. Stöð 2 hlaut allar tilnefningarnar í flokknum leikið efni ársins og skemmtiþáttur ársins. RÚV hlaut hins vegar allar tilnefningar í menningar- og lífsstílsþætti ársins en í flokknum frétta- eða viðtalsþáttur hlaut RÚV tvær en Stöð 2 eina.

- fgg




Fleiri fréttir

Sjá meira


×