Erlent

Obama: Dagur egypsku þjóðarinnar

Barack Obama flutti stutt ávarp frá Hvíta húsinu á níunda tímanum í kvöld um sögulega afsögn Egyptalandsforseta.
Barack Obama flutti stutt ávarp frá Hvíta húsinu á níunda tímanum í kvöld um sögulega afsögn Egyptalandsforseta. Mynd/AP

Barack Obama, Bandaríkjaforseti, segir afsögn Hosni Mubaraks ekki vera endapunkt heldur upphafið af miklum breytingum í Egyptalandi. Umróti undanfarna daga fylgi umtalsverð tækifæri. Obama segir daginn í dag tilheyra egypsku þjóðinni. „Egyptaland verður aldrei samt aftur."

Mubarak lét loks undan kröfu landa sinna í dag og sagði af sér embætti forseta á átjánda degi mótmæla. Gríðarleg fagnaðarlæti brutust út í landinu en í dag höfðu mótmælendur umkringt allar helstu stjórnarbyggingar og höfuðstöðvar ríkissjónvarpsins.

Obama ávarpaði fréttamenn í Hvíta húsinu í kvöld. Hann sagði raddir allra verða fá að heyrast í uppbyggingarstarfinu og að egypski herinn verði að tryggja að breytingarnar verði trúverðugar.

Gríðarleg fagnaðarlæti brutust út

Hundruð þúsund mótmælenda höfðu búist við afsögn Mubaraks úr forsetaembætti í sjónvarpsávarpi hans í gærkvöldi. Þegar Mubarak þráðist enn við og talaði um að Egyptar lytu ekki vilja útlendra afla og hann ætlaði að sitja fram í september, braust út mikil reiði meðal mótmælenda.

Þeir boðuðu að tuttugu milljón manns myndu mótmæla að loknum bænastundum í dag á helgidegi múslíma. Og það stóð heima. Mikill fjöldi kom saman til bæna halds við Frelsistorgið í Kairó og víða annars staðar í höfuðborginni, sem og í öðrum borgum landsins.

Þegar líða tók á daginn höfðu þúsundir manna umkringt forsetahöllina, aðrar stjórnarstofnanir í Kairó og höfuðstöðvar ríkissjónvarpsins og víðs vegar um landið hafi fólk safnast saman við stjórnarbyggingar. Herráðið sendi frá sér yfrirlýsingu þar sem fólk var hvatt til að láta af mótmælum og halda til vinnu sinnar. Herinn myndi tryggja frjálsar kosningar í landinu. Þá bárust fréttir af því um miðjan dag forsetinn og fjölskylda hans hefðu yfirgefið borgina og farið í sumarhús forsetans í Sharm El Sheikh við Rauða hafið, en þaðan er stutt að fara til Saudi Arabíu, hafi Mubarak áhuga á því.

Um klukkan fjögur að íslenskum tíma kom Omar Suleiman varaforseti fram og las stutta yfirlýsingu fyrir fjölmiðla um afsögn Mubaraks.

Gríðarleg fagnaðarlæti brutust út um allt Egyptaland eftir þessa yfirlýsingu. Hvað nú tekur við er óvíst. Eftir 30 ára stjórn flokks Mubaraks eru varla til aðrir skipulagðir stjórnmálaflokkar í landinu en stjórnarflokkurinn. Fólkið vill kosningar en í millitíðinni mun herinn fara með völdin en yfirmenn hans hafa lýst yfir að herinn virði rétt fólksins í landinu.


Tengdar fréttir

Bretar vilja breytingar

„Það er ekki okkar að ákveða hver leiðir Egyptaland heldur egypsku þjóðarinnar,“ segir William Hague, utanríkisráðherra Breta. Hann telur þó brýnt að Egyptar ráðist í umfangsmiklar breytingar. Þær þurfi að ná fram með friðsamlegum og lýðræðislegum hætti. Þetta kom fram í máli ráðherrans eftir að ljóst var að Hosni Mubarak mun sitja áfram sem forseti Egyptalands, en fjölmargir bjuggust við því að hann myndi segja af sér í kvöld.

Mubarak flúinn með fjölskylduna

Óstaðfestar fréttir herma að Hosni Mubarak forseti Egyptalands og fjölskylda hans hafi yfirgefið höfuðborgina Kairó. Lars Lökke Rasmussen forsætisráðherra Danmerkur lýsti því yfir í dag, fyrstur vestrænna leiðtoga, að forsetinn ætti að segja af sér nú þegar.

Hosni Mubarak situr sem fastast

Hosni Mubarak Egyptalandsforseti ætlar að sitja á forsetastóli fram að forsetakosning­unum í september. Þetta staðfesti hann í ávarpi til þjóðar sinnar í gærkvöldi. Gekk yfirlýsing hans þvert á staðhæfingar fjölmiðla um að hann ætlaði að stíga niður.

ElBaradei: Besti dagur lífs míns

„Ekki trúði ég að ég myndi lifa þann dag þegar egypska þjóðinn myndi losna undan áratuga kúgun," sagði Mohamed ElBaradei, handhafi friðarverðlauna Nóbels, eftir að ljóst var að Hosni Mubarak hefði ákveðið að láta af embætti forseta Egyptalands. „Þetta er besti dagur lífs míns," sagði ElBaradei ennfremur. Hann er einn af leiðtogum mótmælenda sem undanfarna 18 daga hafa krafist afsagnar Mubaraks. ElBaradei er fyrrverandi yfirmaður Alþjóðakjarnorkueftirlitsins.

Mubarak hættir

Hosni Mubarak hefur ákveðið að láta af embætti forseta Egyptalands, að því er fram kemur á CNN. Gríðarleg fagnaðarlæti brutust út í Kaíró, höfuðborg Egyptalands, þegar hann tilkynnti ákvörðun sína.

Kaíró: Herinn styður valdaframsal Mubaraks

Egypski herinn hefur gefið út yfirlýsingu þess efnis að hann styðji þá ákvörðun Mubaraks forseta að sitja áfram en framselja völd sín til Suleimans varaforseta. Búist er við milljónum mótmælenda í Kairó síðar í dag en allt er á suðupunkti í landinu eftir að Hosni Mubarak forseti tilkynnti í sjónvarpsræðu að hann ætlaði ekki að segja af sér fyrr en kosið verður í september.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×