Erlent

Herinn lofar umbótum

Mótmælendur hafa ákveðnar skoðanir á Omar Suleiman
Mótmælendur hafa ákveðnar skoðanir á Omar Suleiman

Egypski herinn hefur heitið því að aflétta herlögum sem hafa gilt í Egyptalandi í 30 ár ,,þegar núverandi ástandi lýkur" eins og herforingjaráðið orðar það. Þetta kom fram í sjónvarpsávarpi, nú fyrir stuttu, um það leiti sem mótmælendur voru að byrja að safnast saman fyrir utan forsetahöllina. Einnig er mótmælt á Tahrir torgi og fyrir utan höfuðstöðvar ríkisstjónvarpsins.

Mubarak situr áfram

Yfirlýsing Mubaraks í gær, að hann hygðist sitja áfram, olli vonbrigðum og reiði meðal almennings, sem hefur mótmælt síðustu 17 daga og krafist afsagnar Mubaraks, lýðræðisumbóta og frjálsra kosninga. Ásamt því að lofa afnámi herlaga, sem hefur verið ein helsta krafa mótmælenda, heitir herforingjaráðið að ,,frjálsar og sanngjarnar" forsetakosningar fari fram, umbætur verði gerðar á stjórnarskránni og að ,,öryggi þjóðarinnar" verði tryggt. Herinn hvatti einnig til þess að mótmælendur snéru sér aftur að daglegum störfum ,,til að vernda hagsmuni og eigur okkar merku þjóðar."

Óttast átök

Mótmælin í dag gætu orðið ákveðinn vendipunktur, að mati Jon Leyne fréttamanns BBC í Kairo. ,,Þetta verða vafalaust stærstu mótmælin hingað til og hættan er sú að herinn grípi inní" segir hann og telur að hættuástand hafi skapast. Sherine Barakat íbúi í Kairo sagði hins vegar í viðtali við BBC að hún teldi ekki hættu á inngripi hersins. ,,Í gær sögðu hermenn við okkur að þeir myndu ekki koma í veg fyrir að mótmælendur færu að forsetahöllinni."

Mótmælendur treysta ekki Suleiman

Í yfirlýsingu sinni í gær, sagði Mubarak að varaforsetinn og yfirmaður leyniþjónustunnar, Omar Suleiman, tæki yfir hluta af völdum forsetans, þar til kosningar færu fram í september. Ekki kom skýrt fram í hverju þessi breyting væri fólgin, en sendiráð Egyptalands í Washington sagði að Suleiman færi nú í raun með völd forsetans. Mótmælendur sættu sig ekki við þessa málamiðlun og heimtuðu áfram afsögn Mubaraks.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×