Innlent

Ólína vill fund vegna mengunarinnar frá Funa

Ólína Þorvarðardóttir, þingmaður Samfylkingarinnar í Norðvestur-kjördæmi, hefur ritað umhverfisnefnd Alþingis bréf þar sem hún óskar eftir fundi vegna díoxíðmengunar frá Sorpbrennslustöðinni Funa í Skutulsfirði.

„Fréttablaðiið og nokkrir vefmiðlar greina frá því í dag að díoxíðmengun frá Sorpbrennslustöðinni Funa í Engidal í Skutulsfirði hafi mælst tuttugufalt yfir viðmiðunarmörkum þegar árið 2007 án þess að sú niðurstaða hafi verið kynnt fyrir íbúum á Ísafirði," segir í bréfi Ólínu sem hún áframsendi einnig á fjölmiðla.

„Sorpbrennslustöðin hélt áfram starfsemi þar til nú fyrir skömmu. Málið komst í hámæli nýlega þegar mikil díoxíðmengun mældist í mjólk úr kúm í Engidal. Þar hafa komið upp heilsufarsvandamál hjá ábúendum sem vekja ugg um afleiðingar mengunarinnar fyrir aðra íbúa Ísafjarðarbæjar, einkum í Engidal og Holtahverfi. Þá vakna áleitnar spurningar um það hverng háttað sé reglubundnu mengunareftirliti og upplýsingaskyldu við almenning, því það var Mjólkursamsalan sem uppgötvaði eitrunina í kúnum í Engidal, en ekki heilbrigðiseftirlitið," ritar Ólína.

Hún óskar eftir því að fundur verði haldinn í umhverfisnefnd vegna málsins við fyrsta tækifæri. Hún fer einnig fram á að til fundarins verði kallaðir fulltrúar frá Umhverfisstofnun, Hollustuverndarsviði Umhverfisstofnunar, heilbrigðiseftirlitinu á Ísafirði og bæjarstjórn Ísafjarðarbæjar.

Mörður Árnason, þingmaður Samfylkingarinnar, er formaður umhverfisnefndar.






Tengdar fréttir

Ísfirðingum ekki greint frá eiturgufum frá sorpbrennslu

Eiturefnið díoxín mældist 20 sinnum hærra en viðmiðunarmörk gera ráð fyrir í útblæstri frá sorpbrennslunni Funa á Ísafirði árið 2007. Þáverandi bæjarstjóri á Ísafirði segir að allar mælingar hafi verið kynntar opinberlega. umhverfismál Sorpbrennslustöðin Funi á Ísafirði var í sjö ár undanþegin ströngum reglum um losun eiturefnisins díoxín.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×