„Hún er mjög meðfærilegur hundur en smá prímadonna enda leikkona,“ segir Ásta Dóra Ingadóttir, hundaþjálfari og eigandi Gallerís Voff, en hún sér um að þjálfa tíkina Myrru fyrir frumraun hennar á leiksviði.
Myrra fer með hlutverk hundsins Tótó í uppsetningu Borgarleikhússins á Galdrakarlinum í Oz og mætti á sína fyrstu æfingu í gærmorgun. Að sögn viðstaddra á æfingu sló Myrra rækilega í gegn og var það mál manna að ný stjarna væri fædd í leikhúsheiminum.
„Hún Myrra er búin að vera hjá mér síðustu fjórar vikurnar og má ekki hitta eiganda sinn meðan á þjálfuninni stendur. Ég kalla þetta sumarbúðir,“ segir Ásta Dóra en þetta er í annað sinn sem hún þjálfar hund upp í hlutverk Tótó. „Ég þjálfaði líka hundinn sem lék í leikritinu fyrir fimmtán árum svo ég er öllu vön.“
Ásta Dóra vill meina að Myrra sé smá prímadonna en henni finnst gaman að fara í útreiðatúra en neitar að fara á hest sem er ekki í sama lit og hún sjálf, sem sagt vill bara gráan. „Hún er mjög fyndin. Svo þegar við erum á leið á þreksvæðið, þá situr hún á vespunni með mér, á meðan hinir hundarnir hlaupa.“
Þjálfun Myrru, sem er West Highland White Terrier, gengur út á að fá hana til að hlýða Ástu Dóru og treysta. Einnig þarf Myrra að skipta um kyn á sviðinu því Tótó er karlkyns. „Ég er að þjálfa hana í hálfgerða lífsstílsbreytingu, hlýða strax og svara karlkynsskipunum. Svona heimilishundar eins og Myrra eru ekki vanir svona miklum afskiptum,“ segir Ásta Dóra, sem verður á bak við tjöldin í öllum sýningunum.
„Myrra verður að hlýða mér og svo Láru sem leikur Dóróteu. Þær hittust fyrst á æfingu í morgun og náðu vel saman.“ - áp
